Karlalandslið Íslands og Eistlands mættust í fyrsta sinn í Laugardalshöll 1. nóvember 1996. Leikurinn var liður í undankeppni heimsmeistaramótsins sem fór fram árið eftir í Kumamoto í Japan. Íslenska landsliðið vann leikinn örugglega, 28:19, þrátt fyrir að frammistaðan hafi ekki þótt góð. „Þetta var afspyrnuslakt af okkar hálfu en kalla má þennan leik vinnusigur,“ sagði Þorbjörn Jensson landsliðsþjálfari í samtali við Morgunblaðið daginn eftir. Tekið er fram í umfjöllun Morgunblaðsins að íslenska liðið hafi tapað boltanum 15 sinnum.
Stórleikur Guðmundar
Ólafur Stefánsson var markahæstur með átta mörk, þar af tvö úr vítaköstum. Patrekur Jóhannesson var næstur með sjö mörk úr átta skotum svo ljóst er að ekki hefur allt verið vonlaust í sóknarleik íslenska liðsins. Guðmundur Hrafnkelsson varð 19 skot í markinu, sem var meira en 50% hlutfall vegna þess að Bergsveinn Bergsveinsson varði fjögur skot.
Tímamótaleikur Geirs
Síðari leikurinn við Eistlendinga í undankeppni HM 1997 fór einnig fram í Laugardalshöllinni tveimur dögum eftir fyrri viðureignina. Aftur vann Ísland, 30:22, sem var e.t.v. minnistæðastur fyrir þær sakir að Geir Sveinsson fyrirliði klæddist landsliðspeysunni í 300. skipti. Fyrir leikinn var hann sæmdur silfurmerki HSÍ. Risu áhorfendur úr sætum og klöppuðu Geir lof í lófa.
Tveir fylgdu í kjölfarið
Geir var fyrsti íslenska handknattleiksmaðurinn sem klæddist landsliðspeysunni svo oft á ferlinum. Síðar fylgdu Guðmundur Hrafnkelsson og Guðjón Valur Sigurðsson í kjölfarið.
Frítt inn á leikinn
Vegna dræmrar aðsóknar á fyrri leikinn var brugðið á það ráð að hafa frítt inn á síðari leikinn. Sú ákvörðun skilað sér í að hátt í 3.000 áhorfendur mættu. Komust færri að en vildu. Ákvörðunin þótti hinsvegar umdeild og raddir heyrðust að gera væri lítið úr landsliðinu með þessu.
Síðari leikurinn þótti betri en sá fyrri. Ekki síst þótti lítt reyndum blaðamanni Morgunblaðsins á þeim tíma síðari hálfleikur hafa verið til mikils sóma að hálfu íslenska landsliðsins. „Ætli síðari hálfleikur hafi ekki gert gæfumuninn og valdið því að við sluppum þokkalega frá þessu,“ sagði Geir í samtali við Morgunblaðið.
Bergsveinn varði vel
Valdimar Grímsson var markahæstur í síðari leiknum. Hann skoraði níu mörk, þar af fjögur úr vítaköstum. Júlíus Jónasson var næstur með fimm mörk og Patrekur Jóhannesson og Konráð Olavson skoruðu fjórum sinnum hvor. Bergsveinn Bergsveinsson varði 14 skot, þarf af eitt vítakast, allt í seinni hálfleik.
Þegar þarna var komið við sögu í undankeppninni átti íslenska liðið aðeins tvo leiki eftir óleikna. Danir voru efstir í riðlinum með átta stig eftir fjóra leiki. Ísland var með sjö stig eftir að hafa unnið Eistlendinga tvisvar, Grikki einu sinni auk jafnteflis ytra við þá grísku.
Úrslitin réðust í Álaborg
Eitt lið komst áfram úr riðlinum á HM 1997. Úrslitin réðust í tveimur eftirminnilegum leikjum við Dani hér á landi og ytra á fullveldisdaginn, 1. desember, í einum af eftirminnilegri leikjum íslenskara handknattleikssögu. Íslendingar keyptu nærri því alla aðgöngumiðana að litlu keppnishöllinni í Álaborg og studdu landsliðið til sigurs sem fleytti Íslendingum á HM 1997. Danir sátu eftir með sárt ennið. Rimman sú verður e.t.v. rifjuð upp síðar.
Þrettán ár liðu
Eftir leikina í Laugardalshöll liðu 13 ár þangað til að Íslendingar og Eistlendingar mættust aftur á handknattleiksvellinum í leik A-landsliða karla. Leikurinn var 22. mars 2009 á Ásvöllum í undankeppni EM 2010. Laugardalshöll var upptekin vegna Íslandsmóts fatlaðra í íþróttum og varð þar af leiðandi hafa leikinn á Ásvöllum.
Vísa varð hundruðum frá
Þarna var silfurliðið frá Ólympíuleikunum árið áður að leika einn af sínum fyrstu heimaleikjum eftir afrekið í Peking. Áhuginn fyrir liðinu var gríðarlegur. Áhorfendur voru fleiri en góðu hófi gegndi að margra mati. Talið er að 2.200 áhorfendur hafi verið á Ásvöllum. Haft er eftir starfsmanni HSÍ, Róberti Geir Gíslasyni, í Morgunblaðinu daginn eftir að hundruðum áhorfenda hafi verið vísað frá rétt áður en flautað var til leiks. Útilokað hafi verið að taka við fleiri áhorfendum.
Án Arnórs og Snorra
Í fjölmenni á Ásvöllum, og án Arnórs Atlasonar og Snorra Steins Guðjónssonar sem voru fjarverandi vegna meiðsla, vann íslenska landsliðið stórsigur, 38:24, eftir að hafa verið 12 mörkum yfir í hálfleik, 20:8.
Ásgeir Örn Hallgrímsson var markahæstur með sjö mörk. Aron Pálmarsson var næstur með sex mörk og Guðjón Valur Sigurðsson skoraði fimm mörk. Björgvin Páll Gústavsson varði 15 skot og Hreiðar Levý Guðmundsson fimm.
Sigur á „fjandsamlegum útivelli“
Með þessu stórsigri var íslenska landsliðið svo gott sem öruggt um annað af tveimur efstu sætum riðilsins og þar af leiðandi blasti þátttökuréttur á EM 2010 við. Fjórum dögum fyrir sigurinn á Ásvöllum hafði íslenska landsliðið lagt Norður Makedóníumenn í Skopje, 29:26, að viðstöddum 8.000 áhorfendum á „fjandsamlegum útivelli,“ eins og sagði í fyrirsögn Morgunblaðsins 19. mars 2009.
Sögulegt jafntefli í Pölva
Fjórði og síðasti leikur Íslands og Eistlands til þessa fór fram í Pölva, 6.500 manna bæ í Eistlandi sunnudaginn 21. júni og var síðari viðureignin í fyrrgreindri undankeppni EM 2010. Ísland var öruggt um að komast áfram í keppninni fyrir leikinn sem lauk með jafntefli, 25:25.
Lék með derhúfu sendiherrans
Keppnishöllin í Pölva hafði verið tekin í notkun árið áður vegna Evrópumóts 17 ára landsliða. Hún var m.a. með stórum gluggum efst á annarri hliðinni. Sólin skein glatt inn um gluggana í síðari hálfleik og blindaði m.a. Hreiðar Levý Guðmundsson markvörð. Varð Hreiðar að leika með derhúfu sendiherra Íslands, Hannesar Hilmarssonar, talsverðan hluta af síðari hálfleik.
Án húfu var engin markvarsla
Hannes hljóp út í bíl sinn eftir derhúfu sem þar var þegar hann varð þess var að sólin blindaði Hreiðar. Eftir að Hreiðar fékk húfuna á hausinn varði hann allt hvað af tók en fram að því hafði hann ekki vitað sitt rjúkandi ráð. „Við vorum einmitt að fara yfir markvörsluna og hún var engin meðan ástandi var sem verst,“ sagði Guðmundur Þórður landsliðsþjálfari i samtali við Morgunblaðið.
Skellti skollaeyrum við
Þrátt fyrir áköf mótmæli Íslendinga var ekkert gert í að blinda gluggana. Einar Þorvarðarson framkvæmdastjóri HSÍ og Guðmundur Þórður Guðmundsson landsliðsþjálfari lásu eftirlitsdómaranum pistilinn sem skellti skollaeyrum við. Engu tauti var við hann komið og Hreiðar lék áfram með derhúfuna í markinu.
Jafnteflið í sólskininu í Pölva nægði til að íslenska landsliðið vann riðilinn. Norðmenn töpuðu á sama tíma í Skopje og höfnuðu í öðru sæti í riðlinum og fóru áfram með Íslandi í lokakeppnina.
Margir fjarri góðu gamni
Guðjón Valur Sigurðsson, Snorri Steinn Guðjónsson, Róbert Gunnarsson, Ólafur Stefánsson, Logi Geirsson, Ásgeir Örn Hallgrímsson, Arnór Atlason og Aron Pálmarsson voru ekki með í leiknum sem lauk, 25:25.
Ragnar Óskarssonar var markahæstur með sex mörk, Þórir Ólafsson, Sigurbergur Sveinsson og Vignir Svavarsson skoruðu fjögur mörk hvor. Björgvin Páll Gústavsson varði átta skot í fyrri hálfleik. Hreiðar Levy varði 11 skot með derhúfuna á höfði í síðari hálfleik.
Fimmta viðureign Íslands og Eistlands verður í Tallin í dag og hefst klukkan 16.10. Textalýsing frá leiknum verður á handbolti.is.