Tvö af hinum svokölluðu Íslendingaliðum eru með fullt hús stiga eftir tvær umferðir í þýsku 1. deildinni í handknattleik en önnur umferð hófst í kvöld með sex viðureignum. Rhein-Neckar Löwen og Melsungen hrósuðu öðrum sigrum sínum meðan Göppingegn og Magdeburg náðu að innbyrða fyrstu sigra sína. Reyndar var um fyrsta leik Göppingegn í deildinni á þessari leiktíð að ræða.
Alexander Petersson skoraði tvö mörk og Ýmir Örn Gíslason eitt mark þegar lið þeirra Rhein-Neckar Löwen vann Ludwigshafen, 26:24, á heimavelli síðarnefnda liðsins. Ljónin voru marki yfir í hálfeik, 14:13.
Guðmundur Þórður Guðmundsson og lærisveinar hans í Melsungen unnu Bjarka Má Elísson og samherja í Lemgo, 27:21, á heimavelli Melsungen. Bjarki Már var markahæstur hjá Lemgo með 6 mörk, þar af tvö úr vítaköstum. Leikmenn Lemgo voru í mesta basli með að brjóta á bak aftur varnarleik Melsungen sem var sérlega öflugur annan leikinn í röð. Lemgo var 13:8 undir, þegar leikurinn var hálfnaður.
Arnar Freyr Arnarsson lék mest í vörn Melsungen og var m.a. tvisvar vísað af leikvelli. Hann skoraði ekki mark að þessu sinni.
Ómar Ingi Magnússon skoraði fjögur mörk, þar af eitt úr vítakasti, í tíu marka sigri SC Magdeburg á grannliðinu Füchse Berlin, 32:22, en leikið var í höfuðborginni. Aðeins var tveggja marka munur á liðunum í hálfleik, 14:12, Magdeburg í hag en liðið vann nú sinn fyrsta sigur á leiktíðinni en varnarleikur liðsins var afar traustur allan leikinn.
Gísli Þorgeir Kristjánsson virtst hafa komið lítið við sögu hjá Magdeburg að þessu sinni.
Janus Daði Smárason lék sinn fyrsta leik í þýsku 1. deildinni í kvöld. Lið hans, Göppingen vann þá slag liðanna í suðurhluta Þýskalands, er það mætti Balingen, lokatölur 28:23. Janus Daði skoraði eitt mark í sex skotum en átti tvær stoðsendingar. Oddur Gretarsson skoraði þrjú mörk fyrir Balingen, þar af eitt úr vítakasti.
Göppingegn lék ekkert í fyrstu umferð en leik liðsins við Tusem Essen var slegið á frest.
Úrslit leikja í þýsku 1. deildinni í kvöld voru sem hér segir:
Coburg – Leipzig 22:29
F.Berlin – Magdeburg 22:32
Göppingen – Balingen 28:23
Kiel – Hannover Burgdorf 34:31
Ludwigshafen – R.N. Löwen 24:26
Melsungen – Lemgo 27:21