- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -

Flautumark Einars tryggði annað stigið í Krikanum

Einar Örn Sindrason skoraði jöfnunarmark FH á síðustu sekúndu. Mynd/ J.L.Long
- Auglýsing -

Einar Örn Sindrason tryggði FH annað stigið gegn FH á síðustu sekúndu leiksins í Kaplakrika í kvöld, 30:30, með það sem kallað er nú í síðari tíð, flautumark. Stjörnumenn töpuðu boltanum þegar þrjá sekúndur voru eftir og tíminn nægði FH-liðinu til að krækja í annað stigið sem e.t.v. var sanngjarnt eftir jafnan hörkuleik og bráðskemmtilegan.


FH er eftir sem áður í öðru sæti með 24 stig eftir 17 leiki. Stjarnan er ásamt Aftureldingu, Val og ÍBV með 19 stig í fjórða til sjöunda sæti.
Jafnræði var með liðunum lengst af í fyrri hálfleik í Kaplakrika í kvöld. Hraðinn var talsverður og þótt mörkin yrðu 30 í fyrri hálfleik þá var svo sannarlega möguleiki á að þau yrðu fleiri. Varnarleikurinn var þokkalegur. Stjarnan reyndi um skeið að leika með sjö manna sóknarleik. FH var tveimur mörkum yfir að hálfleiknum loknum, 16:14, eftir að Starri Friðriksson skoraði úr vítakasti eftir að leiktíminn var úti.


FH-ingar byrjuðu betur í síðari hálfleik og héldu forskoti sínu framan af. Stjarnan náði að jafna metin, 20:20, með tveimur mörkum í röð þegar um tíu mínútur voru liðnar af seinni hálfleik. Eftir það var Stjarnan með frumkvæðið og náði í fyrsta sinn tveggja marka forskoti, 25:23, þegar tíu mínútur voru eftir. Stuttu síðar var munurinn kominn upp í þrjú mörk eftir að Starri skoraði öðru sinni á skömmum tíma á nærstöngina hjá Phil Döhler, markverði FH.


FH-ingar lögðu ekki árar í bát. Þeir svöruðu með þremur mörkum í röð og jöfnuðu metin, 26:26. Döhler skoraði jöfnunarmarkið yfir endilangan völlinn þegar mark Stjörnunnar var tómt vegna sjö manna sóknarleiks Stjörnunnar. Garðbæingar léku talsvert með sjö menn í sókn í síðari hálfleik, eins og í þeim fyrri.


Eftir að Einar Rafn Eiðsson skaut í stöng Stjörnumarksins þegar 10 sekúndur voru til leiksloka leit út fyrir að Stjörnumenn tækju bæði stigin með sér. Sú varð ekki raunin. Ónákvæm sending á elleftu stundu færði FH-ingum boltann á silfurfati og tíminn var nægur til að þeir kræktu í annað stigið.


Stjörnumenn naga sig vafalaust í handarbökin en úr því sem komið var eru leikmenn FH vafalaust sáttir við annað stigið.
Stjarnan lék án fyrirliða síns, Tandra Más Konráðssonar, sem valinn var í landsliðið fyrir leikina í undankeppni EM. Ágúst Birgisson var fjarri góðu gamni í liði FH.

Mörk FH: Ásbjörn Friðriksson 7, Einar Rafn Eiðsson 5, Jón Bjarni Ólafsson 3, Arnar Freyr Ársælsson 3, Jakob Martin Ásgerisson 3, Birgir Már Birgisson 2, Eiríkur Guðni Þórarinsson 2, Einar Örn Sindrason 2, Egill Magnússon 1, Leonharð Þorgeir Harðarson 1, Phil Döhler 1.
Varin skot: Phil Döhler 15, 33,3%.


Mörk Stjörnunnar: Pétur Árni Hauksson 8, Björgvin Þór Hólmgeirsson 8, Starri Friðriksson 6/1, Hafþór Már Vignisson 2, Sverrir Eyjólfsson 2, Hrannar Bragi Eyjólfsson 2, Dagur Gautason 1, Brynar Hólm Grétarsson 1.
Varin skot: Adam Thorstensen 11, 35,5% – Sigurður Dan Óskarsson 2 – 18,2%.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -