Teitur Örn Einarsson og samherjar hans í Flensburg unnu meistara THW Kiel í viðureign stórliðanna í norður Þýskalandi í gær, 28:27. Leikurinn var liður í þýsku 1. deildinni í handknattleik. Daninn Emil Jakobsen skoraði sigurmarkið á síðustu sekúndu leiksins sem fram fór í Flens-Arena í Flensburg. Kiel var þremur mörkum yfir í hálfleik, 17:14.
MT Melsungen nýtti tækifærið og komst í efsta sæti deildarinnar með sigri í sinni viðureign sem fram fór um líkt leyti og viðureignin í norðri.
Teitur Örn skoraði ekki mark í leiknum. Johannes Golla skoraði sjö mörk og var markahæstur hjá Flensburg. Johan á Plógv Hansen og fyrrnefndur Jakobsen skoruðu sex mörk hvor.
Nikola Bilyk og Elias Ellefsen á Skipagøtu skoruðu fjögur mörk hvor fyrir THW Kiel sem tapaði sínum fyrstu stigum í deildinni í gærkvöld. Stöðuna í deildinni er finna neðst í þessari grein.
Melsungen efst – Elvar ekki með
MT Melsungen tyllti sér við hlið Füchse Berlín í efsta sæti þýsku 1. deildarinnar í handknattleik með öruggum sigri á HSV Hamburg, 33:26, á heimavelli. Melsungen var þegar komið með 10 marka forskot að loknum fyrri hálfleik, 19:9.
Elvar Örn Jónsson var af óþekktum ástæðum ekki í leikmannahópi Melsungen í gærkvöld. Arnar Freyr Arnarson stóð vaktina og skoraði þrjú mörk, auk þess að láta til sín taka í vörninni og m.a. verja tvö skot.
Uppfært: Á heimsíðu Melsungen kemur fram að Elvar Örn meiddist á öxl í leik við Leipzig á síðasta laugardag. Óvíst er um þátttöku hans í heimsókn til Kiel á sunnudaginn.
Hlekkur á samantekt frá leiknum:
https://www.youtube.com/watch?v=7fIDjXMFanQ
Julius Kühn og Ivan Martinovic skoruðu fimm mörk hvor fyrir MT Melsungen. Dani Baijens skoraði sjö mörk fyrir HSV Hamburg.
Raunir Wetzlar halda áfram. Liðið tapaði á heimavelli fyrir Lemgo, 27:24, og rekur áfram lestina í deildinni ásamt fleiri liðum.