- Auglýsing -
- Auglýsing -

Flugeldasýning Hákons Daða

- Auglýsing -

ÍBV vann ÍR, 38:31, í upphafsleik Olísdeildar karla í handknattleik í íþróttahúsinu við Austurberg í kvöld. Í miklum markaleik voru Eyjamenn fjórum mörkum yfir að loknum fyrri hálfleik, 21:17. Hákon Daði Styrmisson fór hamförum í leiknum og skoraði 13 mörk í 14 skotum.


Nánast algjör uppstokkun var á liði ÍR í sumar eftir fjárhagserfiðleika handknattleiksdeildarinnar. Baráttugleðin hefur samt ekki horfið úr herbúðum liðsins. Því fengu Eyjamenn að kynnast.


ÍR-ingar byrjuðu af fítónskrafti og skoruðu m.a. fjögur af fyrstu fimm mörkum leiksins. Leikmenn ÍBV virtust ekki vera með á nótunum. Þeir náðu þó fljótlega að hressast, ekki síst í sókninni, og saxa niður forskot baráttuglaðra ÍR-inga, sem er spáð litlum frama í deildinni. En hver veit?
Hákon Daði Styrmisson kom ÍBV yfir úr vítakasti, 8:7, eftir liðlega 13 mínútur og var það í fyrsta sinn sem ÍBV komst yfir í leiknum. Eftir það var leikurinn áfram í járnum allt þar til rúmar 20 mínútur voru liðnar af hálfleiknum. Þá skoraði ÍBV-liðið þrjú mörk í röð og náði þriggja marka forskoti, 17:14. Rétt rúmlega sex mínútur voru til loka hálfleiksins og Kristinn Björgúlfsson, þjálfari ÍR, brá á það ráð að taka leikhlé. Það skilaði litlu og nokkru síðar var munurinn kominn í fimm mörk, 19:14.


Fátt breyttist og þegar flautað var til hálfleiks var munurinn fjögur mörk, 21:17, ÍBV í vil. Eins og tölurnar gefa til kynna var varnarleikur og markvarsla lítt áberandi og því miður var á tíðum einnig of mikill hiti í leikmönnum liðanna. Hákon Daði Styrmisson var sprækur í fyrri hálfleik og skoraði átta mörk, þrjú úr vítaköstum. Bróðir hans og fyrrverandi leikmaður ÍBV, Andri Heimir Friðriksson, var atkvæðamestur ÍR-inga í fyrri hálfleik. Hann skoraði fimm mörk.


Eyjamenn bættu aðeins við forskot sitt snemma í síðari hálfleik en annars hélst munurinn á liðunum í sex til sjö mörkum lengst af.
ÍR fá hrós fyrir að leggja ekki árar í bát þótt við ofurefli væri að etja. Ef marka má þennan leik, er ljóst að á brattann verður að sækja á leiktíðinni fyrir Breiðholtsliðið, eins og við hefur verið búist. Hinsvegar er ekki ósennilegt að liðið stríði liðum í neðri hlutanum því þótt veikleikar séu á liðinu þá er baráttugleðin og fórnfýsi leikmanna fyrir hendi.


Eyjamenn náðu aldrei upp almennilegum leik í fyrri hálfleik, en heldur varð bragarbót á fyrstu 20 mínútum síðari hálfleiks. En það er með þá eins og ÍR-liðið. Mótið er rétt nýhafið eftir sex mánaða hlé og margt sem þarf að laga ennþá áður en hámarkinu verður náð í vor.


Andri Heimir Friðriksson var markahæstur hjá ÍR með sjö mörk og Úlfur Kjartansson og Sveinn Brynjar Agnarsson skoruðu fimm mörk hvor.

Hákon Daði fór á kostum eins og fyrr er getið. Hann skoraði 13 mörk í 14 skotum, þar af 6 úr vítaköstum. Kári Kristján Kristjánsson var næstur með sjö mörk, þrjú úr vítaköstum.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -