- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -

Fór út til að elta drauminn

Díana Dögg Magnúsdóttir í leik með BSV Sachsen Zwickau. Mynd/BSV Sachsen Zwickau
- Auglýsing -

„Ég hlakka mikið til að byrja að leika handbolta á nýjan leik eftir nærri sex mánaða hlé,“ sagði handknattleikskonan Díana Dögg Magnúsdóttir þegar handbolti.is heyrði í henni hljóðið þar sem hún var stödd í Zwickau í austurhluta Þýskalands. Eftir fimm góð ár hjá Val þá söðlaði Díana Dögg um í sumar og gekk til liðs við þýska 2. deildarliðið BSV Sachsen Zwickau.

„Ég fór út til að elta drauminn. Sú er ástæðan fyrir að ég yfirgaf Val með svo skömmum fyrirvara. Ég hefði ekki farið út bara til þess að fara út heldur vegna þess að ég get núna sameinað allt í einu, handboltann, nám, öðlast starfsreynslu, búið og numið Þýskalandi sem er land sem hefur alltaf heillað mig. Valur er mitt félag þótt ég sé frá Vestmannaeyjum. Mér líkaði ótrúlega vel hjá Val. Ég þakka Val og öllum í kringum félagið fyrir það sem þau gerðu fyrir mig á fimm árum. Það var alveg ótrúlega mikið,“ sagði valkyrjan Díana Dögg.

Óhætt er að segja að Díana Dögg sé ekki kona einhöm því hún hún lætur ekki handboltann nægja heldur vinnur hún á öflugri verkfræðistofu, CEFEG, sem verkefnastjóri í ábyrgðarmiklu verkefni samhliða því að vera á lokasprettinum í grunnnámi í vélaverkfræði við HR sem hún bætti við sig eftir að hafa fyrst lokið grunnnámi, BA, í fjármálaverkfræði. Um leið og náminu í vélaverkfræði við HR verður lokið verður stefnan tekin á tveggja ára meistaranám í flugvélaverkfræði við Technische University í Dresden og að öllum líkindum með styrk frá vinnuveitenda.

Keppnistímabilið í 1. og 2.deild kvenna hefst  um helgina, mánuði á undan deildarkeppninni í karlaflokki. Mikil tilhlökkun ríkir að sögn Díönu Daggar enda var keppnistímabilið í Þýskalandi jafn endasleppt og tímabilið hér á landi. Leikmenn klæjar hreinlega í lófana yfir að geta tekið til óspilltra mála á leikvellinum. Díana og samherjar í BSV Sachsen Zwickau mæta nágrönnum sínum í HC Leipzig í fyrstu umferð á heimavelli síðarnefnda liðsins. „Það bíða allir spenntir eftir að flautað verði til leiks enda hafa síðustu mánuðir verið mjög sérstakir í kringum handboltann eins og annars staðar í þjóðlífinu,“ sagði Díana Dögg.

Eftirvænting ríkir

Mjög takmarkaður aðgangur áhorfenda verður á leikina í deildunum tveimur og eins verða leikmenn og starfsmenn að hlíta ströngum sóttvarnarreglum á leikstöðum og við æfingar. Við slíkt má lifa svo lengi sem leyfilegt er að hefja keppni á ný.

Díana Dögg segist vera afar spennt fyrir keppnistímabilinu. Liðið er skipað öflugum leikmönnum sem margir eru á hennar aldri, frá 20 til 25 ára. „Þetta er flott lið sem leikur hraðann og skemmtilegan bolta. Hópurinn er skemmtilegur og það var mjög auðvelt fyrir mig að blandast honum. Þjálfarinn er dæmigerður Þjóðverji, mjög ákveðinn, en ég kann afar vel við hann. Segja má að þjálfarinn sé ekkert ósvipaður þeim þjálfurum sem ég hef haft á síðustu árum, það er að segja ákveðnir og kröfuharðir, vilja fá það besta út úr leikmönnum sínum,“ sagði Díana og spurð um hvort eitthvað væri sameiginlegt með nýja þjálfaranum og Ágústi Þór Jóhannssyni sem þjálfaði Val tvö síðustu ár Díönu Daggar hjá Hlíðarendaliðinu þá svaraði hún eftir skamma umhugsun: „Þeir eru ekki ósvipaðir þegar kemur að ákveðni og þeir eiga það sameiginlegt að öskra á mann þegar maður á það skilið.

Þjálfari minn hjá BSV Sachsen Zwickau er einn þeirra sem vill móta leikmenn. Það er nokkuð sem ég sækist eftir í fari hans sem þjálfara og er að því leytinu til afar sátt við það sem ég hef kynnst fram til þessa,“ sagði Díana Dögg.

Hæfilega stórt skref

BSV Sachsen Zwickau var á meðal efstu liða 2. deildar á síðustu leiktíð og var í keppni um að komast upp í efstu deild þegar keppnistímabilinu var slaufað í mars. Spurð um styrkleikann sagðist Díana Dögg telja að hún hafi tekið hæfilega stórt skref með því að fara í 2.deild í Þýskalandi fremur en að ganga til liðs við félag í efstu deildum Norðurlandanna. „Gæðin í boltanum eru töluvert meiri en í Olís-deildinni. Það er ljóst. Fram til þessa höfum við leikið nokkra æfingaleiki við lið jafnt úr fyrstu sem annarri deild þá er ljóst að við eigum fyrir höndum marga hörkuleiki. Við verðum að eiga toppleik í hvert sinn til þess að verða með í baráttunni.

Deildin virkar mjög spennandi sé tekið mið af þeim fjórum liðum úr 2. deildinni sem við höfum mætt í æfingaleikjum,“ sagði Díana en 14 lið eru í 2. deild. „Markmið okkar er klárt, það er komast upp í deild þeirra bestu og halda áfram að þróast sem lið og leikmenn.“

Díana Dögg er önnur tveggja örvhentra leikmanna sem ætlað er að leysa úr skyttustöðunni hægra megin í sókninni.  Henni er hinsvegar einnig ætlað hlutverk sem leikstjórnandi sem er óvenjulegt enda fátítt að leikstjórnendur séu örvhentir eins og Díana Dögg. „Þjálfarinn vildi fá mig til liðsins í þeim tilgangi að auka breiddina í liðinu. Hin örvhenta skyttan er hávaxnari en ég, er meiri skytta. Þjálfarinn hefur sagt að hann hafi sóst eftir mér vegna þess að ég geti leikið í horninu auk skyttustöðunnar en ekki síður sökum þess að honum þykir ég lesa leikinn afar vel og sjái þar af leiðandi opnanir sem aðrir sjá kannski ekki, mér tekst að losa mig við boltann þótt ég sé með mann í mér og sé þar af leiðandi góð í halda boltanum á floti. Auk þess þá hef ég meira skotleyfi núna en stundum áður. Þjálfarinn vill að ég skjóti oftar  á markið, ekki síst með gólfskotum. Ég afar ánægð með traustið,“ sagði Díana Dögg sem hefur sótt mjög í sig veðrið sem varnarmaður á síðustu tveimur árum.

Ætlað að leika á miðjunni

„Til viðbótar er mér ætlað að leika talsvert sem miðjumaður sem er mjög spennandi hlutverk,  sem fylgir um leið aukin ábyrgð. Ég hef ekki mikið leikið á miðjunni fram til þessa, komst aðeins í kynni við stöðuna í yngri flokkunum. Pabbi sagði reyndar við mig á dögunum að Sæunn systir mín, hafi lengi haldið fram að ég eigi hvergi heima annarstaðar en á miðjunni. Sæunn og þjálfarinn sjá leikinn greinilega á líkan hátt,“ sagði Díana Dögg en þess má geta að Sæunn systir hennar var m.a. Íslandsmeistaraliði ÍBV í kringum miðjan fyrsta áratug aldarinnar.

Þekktastur fyrir Trabant

Zwickau er þekktur iðnaðarbær. Á tíma austur-þýska alþýðulýðveldisins runnu Trabant-bifreiðar í löngum röðum út af færiböndum verksmiðja og þótt Volkswagen hafi í nærri þrjá áratugi verið með umfangsmikla framleiðslu á bifreiðum sínum í Zwickau er borgin enn þekktari fyrir að þar voru bækistöðvar framleiðslu Trabant. Gamla verksmiðjuhúsið hýsir nú safn um þennan smáa bíl sem var um skeið stolt austur-þýskrar bifreiðaframleiðslu sem m.a. voru samin dægurlög til heiðurs á velmektarárunum. Eflaust muna einhverjir enn eftir söng Sonju Schmidt um himinbláu Trabantbifreiðina sem henni dreymdi um.

Púsluspil fyrir umboðsmanninn

„Þótt helsta ástæðan fyrir flutningi mínum til Þýskalands hafi verið að leika handknattleik þá gerði ég forráðamönnum félagsins grein fyrir að hugur minn stefndi einnig á nám. Og af því að ég stefni í mastersnám í flugvélaverkfræði þá gat ég ekki farið í hvaða háskóla sem er.  Þess vegna var það nokkur þraut fyrir umboðsmann minn að finna ekki aðeins lið sem hentaði mér heldur einnig lið sem væri í nálægð við háskóla þar sem ég gæti farið í það nám sem ég stefndi að. Með því að fara til Zwickau-liðsins get ég farið í háskólanám í Dresden þar sem boðið er upp á meistaranám í flugvélaverkfræði. Þangað er ekki svo langt að fara, að hámarki klukkustund. Þannig að þegar allt kemur til alls þá hentar hvort tveggja mér vel, handbolti í Zwickau og háskólanám í Dresden eftir ár. Þangað til  ég hef námið verð ég í vinnu hjá fyrirtæki og gegni starfi verkefnastjóri við að innleiða nýtt stýrikerfi í fyrirtæki sem framleiðir alls konar hluti fyrir bífreiðar, lestir, tölvur og alls kyns annan iðnað. Ég var semsagt svo lánsöm að fá risastórt tilboð til að stunda handbolta og hafa umsjón með ábyrgðarmiklu verkefni sem verður sterkt fyrir ferilskrána fyrir utan að ég á möguleika á að fá styrk frá vinnuveitanda mínum til meistaranámsins eftir ár.“

Fínt þegar ekkert er að gera

Ofan á annað er Díana Dögg að leggja hönd á lokaáfanga í vélaverkfræði við HR, áfanga sem ekki var hægt að ljúka í vor sem leið vegna covid19. Óhætt er að segja að Díana Dögg hafi í mörg horn að líta um þessar mundir. „Þetta er ekkert mál, ennþá að minnsta kosti. Mér gengur vel að komast í gegnum verkefnin sem ég þarf að skila. Segja má að þetta sé mjög fínt svona þegar maður hefur ekkert að gera,“ sagði Díana Dögg sem segist aldrei hafa ráðist á garðinn þar sem hann er lægstur.

„Að blanda þessum tveimur gráðum saman, fjármála- og vélverkfræðinni, er eitt það besta sem ég hef gert til þessa og hefur víkkað gríðarlega mikið út starfsvettvanginn. Þegar ég bæti flugvélaverkfræðinni saman við fjölgar tækifærunum enn meira,“ sagði dugnaðarforkurinn af yfirvegun.

Flugvélaverkfræði í stað flugnáms

Hvernig vaknaði áhuginn fyrir flugvélaverkfræðinni? Díana Dögg segir að allt frá blautu barnsbeini hafi henni langað að vera flugmaður þegar hún yrði stór. Þegar íþróttirnar voru farnar að stýra lífinu á unglingsárum, því ekki má gleyma að Díana Dögg þótti einstaklega efnileg knattspyrnukona, þá var ljóst að flugnám hentaði ekki vel með íþróttunum. Alltént ekki standi metnaður til að ná árangri í íþróttum.

„Þegar ég var í áfanga sem nefndist varmafræði og öðrum í framhaldinu sem nefnist straumfræði voru kaflar sem sneru meðal annars að flugvélum og hreyflum. Þar með vaknaði óbilandi áhugi á þessum greinum og kannski meiri en á jarðvarmanum sem ef til vill hefði verið rökréttara vegna sérstöðu Íslands í þeim efnum. Flugvélarnar voru minn tebolli, ef svo má að orði komast.  Þar með var ekki aftur snúið, teningunum var kastað og síðan hef ég einbínt á flugvélaverkfræði.  Þegar upp er staðið þá má segja að flugvélaverkfræðin sameini að mörgu leyti fjármálaverkfræðina annars vegar og vélaverkfræðina hinsvegar, er kannski púslið sem mig vantað á milli greinanna tveggja. Og þótt flugvélaiðnaðurinn liggi í láginni um þessar mundir þá á hann eftir að rísa upp aftur þegar heimurinn fer að snúast eðlilega á nýjan leik. Þá verð ég klár í slaginn,“ sagði handknattleikskonan, verkfræðingurinn og dugnaðarforkurinn Díana Dögg Magnúsdóttir í samtali við handbolta.is í vikunni.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -