Eftir samtöl á milli Jóns Halldórssonar formanns Handknattleikssambands Íslands og Michael Wiederer forseta Handknattleikssambands Evrópu, EHF, í dag féllst forseti EHF á að undanþága yrði gerð í kvöld til að leikin verði tveggja mínútna löng útgáfa Hreims Arnar Heimissonar tónlistarmanns á laginu „Lífið er yndislegt“ ef íslenska landsliðið vinnur ungverska landsliðið í Kristianstad Arena í lokaleik riðlakeppninnar.
Áður hafði EHF lagt blátt bann við að lagið eða eitthvað annað yrði leikið í leikslok, eins og handbolti.is sagði frá.
Forseti EHF gaf aðeins grænt ljós á að gerð væri undantekning í kvöld. Eins og sakir standa þá stendur fyrra bann þegar keppni hefst í milliriðlum á föstudaginn.
Hreimur Örn Heimisson hefur gert nýja tveggja mínútna útgáfu af laginu sérstaklega til flutnings í kvöld.
Bann af gefnu tilefni
Bannið mun hafa verið sett í kjölfar þess að tónlist með króatískum þjóðernissinnum ómaði um sali í Malmö eftir viðureign Króatíu og Georgíu á laugardaginn.
HSÍ hefur sent enska þýðingu á textanum við lagið „Lífið er yndislegt“ til EHF í þeirri von að áframhaldandi undanþága fáist.




