- Auglýsing -
- Auglýsing -

Verðum að brjóta upp munstrið

Guðmundur Rúnar Guðmundsson, þjálfari Fjölnis, og leikmenn hans eru komni í annað sæti í Grill66-deild. Mynd/Fjölnir-Þorgils G.
- Auglýsing -

Guðmundur Rúnar Guðmundsson, þjálfari karlaliðs Fjölnis í Grill 66-deild karla segir sína menn hafa haldið vel á spilunum undanfarnar vikur. Vel hafi verið hugað að líkamsþjálfun. Leikmenn séu ungir og metnaðarfullir og hafi ekki slegið slöku við undir stjórn fagfólks.

Guðmundur Rúnar reiknar með að á næstunni verði að brjóta upp æfingamynstrið til þess að komast hjá leiða. Hann telur erfitt að segja til um hvort hægt verði að leika marga leiki í deildinni fyrir áramótin. Hinsvegar geti janúar nýst vel eftir að hætt var við stórmót yngri landsliða en einhverjir leikmenn úr deildinni hefðu sennilega tekið þátt í þeim með íslensku ungmennalandsliðunum. Þar af leiðandi ætti að vera hægt að vinna upp þrjár til fjórar umferðir í fyrsta mánuði ársins, hafi þá dregið svo mikið úr veirusmitum að hægt verði á annað borð að halda áfram.

Guðmundur Rúnar telur að liðin í Grill 66-deild karla vera misvel í stakk búinn að mæta þeirri röskun sem hefur orðið og verður áfram á leikja skipulagi Íslandsmótsins og á æfingaáætlunum félaganna.

Handbolti.is sendi Guðmundi Rúnari, eins og fleiri þjálfurum í Olís,- og Grill 66-deildunum nokkrar spurningar. Spurningarnar og svörin eru hér að neðan.

Sinnt af fagmennsku

Hvernig hefur gengið að halda leikmönnum við efnið síðustu vikur?

„Það hefur gengið mjög vel, þar sem við erum með fagmennina hjá Spörtu okkur innan handar í allri líkamsþjálfun eins og styrk og hlaupum. Þeir hafa einnig verið með fasta tíma þar sem styrktaræfingar hafa farið fram gegnum Rooms þar sem allir hittast gegnum netið og æfa saman. Ég er með gríðarlega ungan og hungraðan hóp leikmanna á tvítugs aldri sem hafa náð að sinna þessu af fagmennsku og bíða allir spenntir eftir að komast aftur á fullt.“

Gæti orðið erfitt

Hvernig horfir þú til næstu vikna sem þjálfari?

„Næstu vikur snúast mestmegnis um að hver og einn leikmaður einbeiti sér að andlegu hliðinni þar sem svona endalaus stopp og menn detta úr rútínu í sínu daglega lífi, getur reynst mörgum gríðarlega erfitt. Ég mun vera mönnum innan handar í þeim efnum og ásamt því að bæta inn öðruvísi æfingum þar sem við brjótum aðeins upp mynstrið sem flestir eru orðnir þreyttir á.“

Meiri möguleikar í Grillinu

Er eitthvað hægt að velta framhaldinu fyrir í sér í deildarkeppninni meðan óljóst er hvenær verður hægt að hefja æfingar af einhverjum krafti?

„Tíminn verður bara að leiða það í ljós hvort við náum að byrja fyrir áramót að spila leiki, liðin í Grillinu eiga alltaf möguleika á að spila í landsliðsglugganum í janúar og þar er möguleiki á 3-4 umferðum. Sérstaklega eftir að hætt hefur verið við öll stórmót hjá unglingalandsliðum í janúar.“

Misjafnar forsendur

Hvaða áhrif getur ástand síðustu vikna, þ.e. leikið takmarkað og jafnvel litlar æfingar, haft á framhaldið hjá liðum í Grill 66-deild karla, svona heilt yfir?

„Það verður að segjast að liðin í Grillinu eru mörg á mismunandi forsendum í þessu. Leikmenn í liðum sem æfa bara tvisvar í viku og spila leiki, eiga örugglega erfiðara með að mótivera sig í að æfa einir heima hjá sér, þar sem stór partur af markmiðum þessara liða er félagslegi þátturinn og að fá að spila handbolta sér til skemmtunar. En flest liðin eru mjög ung og með ágætlega stóra hópa þannig að það mun reyna mikið á liðsheildina þegar mótið fer aftur af stað undir miklu leikjaálagi.“

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -