„Við höfum leikið af krafti og staðið okkur vel þótt það sé pínu svekkjandi með síðustu tvo leiki. Ég er stolt af okkur,“ segir Sonja Lind Sigsteinsdóttir ein leikmanna U20 ára landsliðs kvenna í samtali við handbolta.is í Skopje eftir hádegið í dag áður en leikmenn landsliðsins fengu frí hluta úr deginum til þess að hitta vini og vandamenn og skoða sig um í borginni.
Klukkan 10 í fyrramálið, sunnudag, leikur íslenska landsliðið áttunda og síðasta leik sinn á heimsmeistaramótinu gegn Sviss um sjöunda sæti mótsins. Flautað verður til leiks klukkan 10 að staðartíma, átta að íslenskum, og vitanlega verður tíðindamaður handbolti.is snemma á fótum og fylgir síðasta leiknum eftir.
Sonja Lind segir að farið sé að síga í leikmenn eftir langa og stranga törn undanfarnar vikur.
„Það kemur ekkert annað til greina en að klára mótið á fullri ferð. Við förum snemma að sofa og verðum tilbúnar í síðasta leikinn,“ segir Sonja Lind glaðbeitt.
Mikilvægur stuðningur
Athygli hefur vakið hversu margir úr fjölskyldum leikmanna hafa fylgt íslenska hópnum eftir á mótinu. Þegar flest var voru sennilega hátt í 80. Flestir eru hér ennþá. Sonja segir þennan kraftmikla stuðning skipta miklu máli og veita liðinu aukin byr í seglin. „Við nýtum stuðninginn sem aukakraft,“ segir Sonja Lind sem eins og aðrar í íslenska liðinu verður klár í slaginn við Sviss klukkan 10 í fyrramálið í Boris Trajkovski-íþrótttahöllinni í Skopje.
Lengra myndskeiðsviðtal við Sonju Lind er efst í þessari frétt.
HMU20: Dagskrá og úrslit síðustu leikdagana