- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -

Frá Eyjum til Austureyjar – „Þetta verður ævintýri“

Kristinn Guðmundsson flytur til Færeyja í sumar. Mynd/Ívar
- Auglýsing -

Kristinn Guðmundsson annar þjálfari karlaliðs ÍBV hefur samið við EB frá Eiði á Austurey í Færeyjum og tekur til starfa hjá félaginu 1. júlí. „Ég er að fara í uppbyggingarstarf en það eru spennandi einstaklingar í kringum klúbbinn. Aðstaðan er frábær, þar á meðal tvö íþróttahús og mjög góð lyftingaaðstaða og nægur efniviður. Þetta verður ævintýri,“ sagði Kristinn í samtali við handbolta.is í kvöld.


„Á Eiði hefur ekki verið meistaraflokkur í 25 ár en nú frá og með næsta keppnistímabili verður meistaraflokkur kvenna með í úrvalsdeild í fyrsta sinn um nokkurt skeið. Ég verð með liðið og þjálfa einnig elstu stelpurnar og strákana á aldursbilinu fyrir neðan meistaraflokk,“ sagði Kristinn sem kveðst afar spenntur fyrir tækifærinu og hafi hann ekki hugsað sig lengi um þegar það bauðst.


„Þeta verður allt annað en það sem ég hef verið að fást við í Vestmannaeyjum síðustu tvö ár og ótrúlega spennandi,“ sagði Kristinn.
Hann segir að vel á þriðja þúsund íbúar séu á því svæði sem félagið nær yfir og þar af séu um 200 í handknattleik. Mikill og vaxandi áhugi sé fyrir handbolta þar eins og annarstaðar í Færeyjum.

„Ég hlakka til að breyta til auk þess sem mig hefur langað að búa í Færeyjum og kynnast lífinu þar,“ sagði Kristinn Guðmundsson, annar þjálfari karlaliðs ÍBV, sem mun vitanlega ljúka leiktíðinni áður en hann flytur til Austureyjar í Færeyjum frá Vestmannaeyjum.

Þar með fjölgar Íslendingum í færeyska handknattleiknum en fyrir er Arnar Gunnarsson þjálfari hjá Neistanum í Þórshöfn, Finnur Hansson sem hefur árum saman verið leikmaður og þjálfari í Færeyjum og Hörður Fannar Sigþórsson sem reyndar rifaði seglin á dögunum eftir að hafa leikið með þremur liðum á eyjunum undanfarin níu ár. Finnur var á dögunum ráðinn inn í þjálfarateymi færeyska kvennalandsliðsins eins og handbolti.is sagði frá.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -