- Auglýsing -
- Auglýsing -

Frá keppni í 10 til 12 mánuði

Haukur Þrastarson verður frá keppni í 10-12 mánuði. Mynd/EPA
- Auglýsing -

Handknattleiksmaðurinn Haukur Þrastarson verður frá keppni í 10 til 12 mánuði eftir að í ljós kom í dag að fremra krossband í vinstra hné er slitið, skemmd er í liðþófa og beinmar. Þetta hefur handbolti.is fengið staðfest hjá Erni Þrastarsyni, bróður Hauks, en Haukur gekkst undir segulómskoðun hjá læknum Vive Kielce í Póllandi í dag.

Haukur meiddist í leik með Vive Kielce gegn Elverum í Meistaradeild Evrópu í handknattleik í Elverum í Noregi á fimmtudagskvöldið. Strax var óttast að krossband væri slitið og hefur það nú verið staðfest.

„Haukur kemur heim á næstu dögum og fer í aðgerð hjá læknum íslenska karlalandsliðsins í handknattleik. Jón Birgir Guðmundsson sjúkraþjálfari Selfoss-liðsins og landsliðsins mun síðan sjá um endurhæfingu Hauks fyrstu mánuðina áður en hann fer aftur út til Kielce,“ sagði Örn Þrastarson, bróðir Hauks í samtali við handbolta.is.

„Haukur er vissulega svekktur og vonsvikinn út af þessari stöðu en hann er harðákveðinn í að koma enn sterkari til baka,“ sagði Örn ennfremur.

Haukur, sem er 19 ára gamall, er einn allra efnilegasti handknattleiksmaður Evrópu. Hann sló í gegn með Selfoss-liðinu aðeins 15 ára gamall og var einn lykilmaður liðsins þegar Selfoss vann Íslandsmeistaratitilinn í fyrsta sinn vorið 2019.

Eftir að hafa verið lengi undir smásjá flestra sterkustu handknattleiksliða Evrópu ákvað Haukur í fyrravetur að semja við pólska meistaraliðið Vive Kielce. Flutti hann hann út í sumar en ristarbrotnaði fljótlega og var frá keppni í upphafi tímabilsins. Haukur var kominn á fulla ferð og búinn að jafna sig þegar hann meiddist í leiknum við Elverum í Noregi á síðasta fimmtudag. Þá fékk hann högg á hnéð eftir að hafa hlaupið fram leikvöllinn og skoraði sitt fyrsta mark á ferlinum í leik í Meistaradeild Evrópu. Þetta var hans annar leikur með Vive Kielce í Meistaradeildinni.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -