- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -

Frábær árangur Vals getur sett úrslitakeppnina í uppnám

Valsmenn fagna sigri á rúmenska liðinu Baia Mare í síðasta mánuði. Ljósmynd/Dragomir Ovidiu
- Auglýsing -

Frábær árangur Vals í Evrópubikarkeppninni í handknattleik getur sett strik í reikning úrslitakeppni Olísdeildar karla. Fari undanúrslitarimma Vals og Aftureldingar í fjóra eða fimm leiki rekast þeir leikir á við úrslitaleik Vals og Olympiacos. Komi til fjórða og fimmta leiks í undanúrslitum fara þeir ekki fram fyrr en eftir að úrslitaleikjum Evrópubikarkeppninnar verður lokið.

Rekst hvað á annars horn

Samkvæmt leikjadagskrá undanúrslita Olísdeildar karla eiga fjórði og fimmti leikur undanúrslitanna á milli Aftureldingar og Vals að fara fram 15. og 17. maí. Úrslitaleikir Evrópubikarkeppninnar á milli Vals og Olympiacos verða 18. eða 19. maí og 25. eða 26. maí. Fyrri helgin kemur í hlut Valsmanna fyrir úrslitaleikinn.

Fimmtudagur og sunnudagur

Afturelding vann fyrstu viðureignina við Val. Næsti leikur verður á fimmtudagskvöldið 2. maí í N1-höllinni á Hlíðarenda. Þriðja viðureignin fer fram að Varmá sunnudaginn 5. maí. Eftir það tekur við vikuhlé vegna landsleikja. Landsliðið kemur saman mánudaginn 6. maí vegna leikja við Eistlendinga 8. og 11. maí í undankeppni heimsmeistaramótsins. Afturelding og Valur eiga leikmenn í landsliðinu.

Í hvað verður púðrið notað?

Ef Afturelding vinnur rimmuna við Val í þremur leikjum þá verður hægt að halda úrslitakeppninni áfram eftir landsleikjahlé enda verður rimma FH og ÍBV leidd til lykta í síðasta lagi sunnudaginn 5. maí. Eins gæti Valur hent handklæðinu inn í hringinn í undanúrslitum Olísdeildar og lagt allt púður í úrslitaleiki Evrópubikarkeppninnar enda ekki á hverjum degi sem lið ná svo langt.

Úrslitaleikur 17. júní?

Dragist rimma Aftureldingar og Vals í fjóra eða fimm leiki er ljóst að henni verður ekki lokið fyrr en einhverjum dögum eftir síðari úrslitaleikinn, upp úr mánaðamótum maí/júní. Þá verða úrslitaleikirnir um Íslandsmeistaratitilinn eftir. Þeir geta að hámarki orðið fimm og Íslandsmeistarar e.t.v. krýndir 17. júní.

Róbert Geir Gíslason framkvæmdastjóri HSÍ sagði við handbolta.is að sambandið væri tilbúið með leikjadagskrá ef rimma Aftureldingar og Vals fer í fjóra að fimm leik en vildi ekki að svo stöddu fara nánar út í þá sálma.

Fréttin hefur verið uppfærð.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -