Íslenska landsliðið leikur um 7. sæti á Evrópumótinu í handknattleik 20 ára landsliða karla á sunnudaginn. Andstæðingurinn verður norska landsliðið. Ísland tapaði fyrir Svíum í hörkuleik í Dvorana Zlatorog í Celje í dag, 30:27, eftir að hafa verið fimm mörkum undir í hálfleik, 18:13.
Með afar góðum leik í síðari hálfleik, ekki síst í vörninni, tókst íslensku piltunum að jafna, 24:24 og aftur, 25:25, þegar sjö mínútur voru til leiksloka. Því miður voru Svíar lánsamari á síðustu mínútunum og tókst að hanga á sigrinum eins og hundur á roði. Svíar leika við Austurrríki um 5. sæti Evrópumótsins á sunnudaginn. Austurríki lagði Noreg, 30:22, í morgun.
Íslensku piltarnir lögðu allt í sölurnar í leiknum og voru grátlega nærri að hafa betur. Smáatriði féllu með Svíum undir lokin og á því munaði þegar upp var staðið.
Mörk Íslands: Andri Fannar Elísson 5, Reynir Þór Stefánsson 5, Atli Steinn Arnarson 3, Eiður Rafn Valsson 3, Haukur Ingi Hauksson 2, Birkir Snær Steinsson 2, Össur Haraldsson 2, Skarphéðinn Ívar Einarsson 2, Hinrik Hugi Heiðarsson 2, Elmar Erlingsson 1.
Varin skot: Breki Hrafn Árnason 11, 27,5%.
EMU20 karla: Leikir, úrslit og staðan, milliriðlar og sætisleikir
Handbolti.is var í Dvorana Zlatorog og fylgdist með leiknum í textalýsingu hér fyrir neðan.