- Auglýsing -
- Auglýsing -

Frábært að fá símtalið í gær

Kristján Örn Kristjánsson, Donni. Mynd/PAUC
- Auglýsing -

„Það var algjörlega frábært að fá símtalið í gær um að ég væri í hópnum,“ sagði örvhenta skyttan Kristján Örn Kristjánsson, Donni, hjá PAUC í Frakklandi, þegar handbolti.is heyrði stuttlega í honum hljóðið eftir að Guðmundur Þórður Guðmundsson, landsliðsþjálfari karla í handknattleik tilkynnti fyrir hádegið hverjir verða í hópnum sem býr sig undir og tekur þátt í HM í Egyptalandi í janúar og leikjum við Portúgal í undankeppni EM skömmu fyrir HM.

„Þótt samkeppnin sé gríðarleg í hægri skyttustöðunni í landsliðinu þá kom mér það ekki á óvart að vera í hópnum. Mér líður eins og ég eigi loksins skilið þetta pláss. Ferillinn minn hefur þróast mikið þetta árið. Ég varð bikarmeistari með ÍBV í byrjun mars og steig svo skrefið út í atvinnumennskuna. Að komast á HM var næsta skref hjá mér,“ sagði Donni sem lék sína fyrstu landsleiki haustið 2019 en hann hefur talsverða reynslu af þátttöku á stórmótum með yngri landsliðum Íslands.


Donni var valinn í landsliðið í byrjun nóvember fyrir leik við Litháen í undankeppni EM en varð að bakka út úr liðinu á elleftu stundu eftir að kórónuveirusmit kom upp í herbúðum PAUC daginn áður en halda átti til Íslands.

Kemur allt í ljós


Donni segist ekki vita hvert sitt hlutverk í hópnum verður en þrír leikmenn til viðbótar voru valdir í skyttstöðuna hægra megin þar sem hann leikur. „Ég veit ekki hvernig Gummi ætlar að hugsa þetta með fjórum hægri skyttum. Það kemur bara í ljós þegar nær dregur. Ég er bara mjög spenntur að fá loks aftur að spila fyrir Íslands hönd,“ segir Donni sem á tvo leiki eftir með sínu félagsliði fyrir jól. PAUC hefur gengið afar vel og unnið sjö af átta viðureignum sínum á tímabilinu auk þess sem Donni er markahæsti maður liðsins.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -