- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -

Frábært svar við gærdeginum – ekki fleiri grísk lið

Sigurður Bragason, þjálfari ÍBV. Mynd/Egill Bjarni Friðjónsson
- Auglýsing -

„Frammistaðan var mjög góð og var frábært svar við gærdeginum,“ sagði Sigurður Bragason, þjálfari ÍBV, í samtali við handbolta.is í dag eftir að ÍBV vann OFN Ionias frá Aþenu, 27:22, í síðari leik liðanna í annarri umferð Evrópubikarkeppni kvenna í handknattleik í Vestmannaeyjum. Samanlagt vann ÍBV með fjögurra marka mun, 47:43, og tekur sæti í næstu umferð keppninnar eins og annað íslenskt félagslið, Valur.

Sunna hreinlega bakaði Krnic

„Eftir eins marks tap í gær þá fórum við vel yfir viðureignina og breyttum aðeins leik okkar. Meðal annars lögðum við meiri áherslu á að loka á Natasa Krnic sem vann eiginlega leikinn fyrir gríska liðið í gær. Sunna [Jónsdóttir] fékk það hlutverk að halda Krnic í skefjum og fórst það vel úr hendi. Hún hreinlega bakaði hana. Heilt yfir var frammistaðan fagleg og góð hjá liðinu,“ sagði Sigurður og bætti við að ÍBV hefði einnig átt að vinna fyrri leikinn.


„Við misstum aðeins hausinn í sóknarleiknum þegar á leið síðari hálfleik í gær og töpuðum niður góðu forskoti. Segja má að við höfum frosið á lokakaflanum.

Voru orðnar bláar í framan

ÍBV-liðið er skipað betri íþróttamönnum en Ionias-liðið. Leikmenn gríska liðsins voru orðnir bláir í framan af áreynslu á sama tíma og mínir leikmenn blésu varla úr nös. Það segir bara meira en mörg orð um í hversu góðu formi stelpurnar eru,“ sagði Sigurður og er stoltur af sínu liði.

Langar til Portúgals

Dregið verður í þriðju umferð keppninnar á þriðjudagsmorgun. Sigurður segist eiga ákveðnar óskir um næsta mótherja en meðal liða í pottinum er gríska liðið PAOK sem ÍBV vann í tveimur leikjum í Þessalóníuku fyrir ári síðan.

„Ekki Val eða PAOK. Í hreinskilni sagt hef ég fengið alveg nóg af grískum liðum. Ég er hinsvegar alveg tilbúinn að fara til Portúgals,“ sagði Sigurður Bragason þjálfari ÍBV léttur í bragði.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -