- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -

Frábært tækifæri fyrir okkar efnilega lið

U18 ára landsliðið sem leikur tvo vináttuleiki við Dani í Kolding. Á myndina vantar Elísu Elíasdóttur sem var með A-landsliðinu í Svíþjóð þegar myndin var tekin. Mynd/Aðsend
- Auglýsing -

Landslið kvenna, skipað leikmönnum 18 ára og yngri hélt af landi brott í morgun til Danmerkur þar sem það leikur tvo leiki við danska landsliðið í Kolding um helgina. Leikirnir eru liður í undirbúningi íslenska landsliðsins fyrir þátttöku í umspili um sæti í lokakeppni EM í þessum aldursflokki. Umspilið fer fram síðla í nóvember.


„Það er frábært fyrir þetta efnilega lið okkar að fá tvo æfingaleiki í þessari æfingatörn sem hófst síðasta sunnudag, hvað þá leiki við Dani sem eru með fjórða besta lið Evrópu í þessum aldursflokki,“ sagði Ágúst Þór Jóhannsson, þjálfari U18 ára landsliðsins í samtali við handbolta.is.

Vilja auka breiddina í hópnum

U18 ára er skipað að uppistöðu til sömu leikmönnum og stóð sig afar vel í B-keppni Evrópumóts U17 ára landsliða í Litáen í ágúst.


„Fjórar breytingar eru á hópnum frá keppninni í Litáen. Breytingarnar gerðum við til þess að gefa fleiri leikmönnum tækifæri og reyna um leið að auka breiddina í hópnum.

Við erum virkileg spennt að sjá hvernig stelpunum gengur í þessum leikjum. Markmið okkar er að halda áfram að byggja ofan á leik okkar, jafnt í 6/0 og 5/1 vörnina um leið og þess verður freistað að auka úrvalið í vopnabúrinu í sóknarleiknum,“ sagði Ágúst Þór sem kemur til móts við íslenska hópinn í Kolding á morgun. Hann er staddur með A-landsliði kvenna í Eskilstuna. Síðustu daga hafa Árni Stefán Guðjónsson og Jóhann Ingi Guðmundsson þjálfarar drifið áfram æfingar.

Árni Stefán Guðjónsson og Jóhann Ingi Guðmundsson, þjálfarar, leggja á ráðin með leikmönnum á æfingu í Kaplakrika í vikunni. Mynd/Aðsend

Valinn maður í hverju rúmi

„Ég er stálheppinn að vera með hörkugóðan mannskap með mér í þessu verkefni þar sem eru Árni Stefán aðstoðarþjálfari, Jóhann Ingi markvarðaþjálfari, hin þrautreynda Guðríður Guðjónsdóttir liðsstjóri og Silja Rós Theodórsdóttir sjúkraþjálfari. Það er valinn maður í hverju rúmi í þessari áhöfn,“ sagði Ágúst Þór ákveðinn á svip.

Mynd/Aðsend

Kraftur og metnaður

„Stelpurnar hafa æft af krafti og metnaði síðustu daga og hlakkar til leikjanna,“ sagði Ágúst Þór og áréttaði að leikirnir væri afar kærkomnir til að auka reynslu leikmanna í alþjóðlegri keppni. Það að fá boð frá Dönum sem væru með eitt besta lið Evrópu í þessum aldursflokki undirstrikaði að með mikill vinnu væri íslenska liðið á braut framfara og hamra yrði járnið meðan heitt væri.

„Viðureignirnar eru afar vel til þess fallnar að búa okkur okkur undir umspilið sem fram fer í Serbíu í seinni hluta nóvember,“ sagði Ágúst Þór Jóhannsson, þjálfari U18 ára landsliðs kvenna.

U18 ára landsliðshópurinn.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -