Frakkland vann sín fimmtu bronsverðlaun á heimsmeistararmóti í handknattleik í dag. Frakkar unnu Portúgala með eins marks mun í hnífjafnri viðureign um bronsverðlaunin á Unitey Arena í Bærum í Noregi, 35:34. Charles Bolzinger markvörður Frakka kom í veg fyrir framlengingu þegar hann varði frá António Areia hægri hornamanni portúgalska liðsins á síðustu sekúndu leiksins.
Rétt áður en Bolzinger varði skot Areia hafði Melvyn Richardson skorað 35. mark Frakka úr vítakasti sem Ludovic Fabregas hafði unnið.
Frakkar voru tveimur mörkum yfir í hálfleik, 19:17, eftir fjörugan leik þar sem mörkin komu nánast á færibandi. Heldur hægðist á leiknum í síðari hálfleik. Liðin skiptust á að vera einu til tveimur mörkum yfir. Portúgalska liðið, sem hefur aldrei áður verið í þeim sporum að leika til verðlauna gaf ekkert eftir. Gustavo Capdeville markvörður vaknaði eftir daufan fyrri hálfleik.
Spenna var í leiknum allt til loka. Francisco Costa og Martim Costa voru allt í öllu í sóknarleiknum auk Victor Iturriza línumanns.
Mörk Frakklands: Aymeric Minne 10, Dylan Nahi 6, Dika Mem 4, Julien Bos 4, Ludovic Fabregas 4, Elohim Prandi 3, Thibaud Briet 2, Melvyn Richardson 2/2.
Varin skot: Charles Bolzinger 8/1, 32% – Rémi Desbonnet 4, 19%.
Mörk Portúgals: Francisco Costa 8, Victor Iturriza Alvarez 7, Martim Costa 5, António Areia 3, Pedro Portela 3, Rui Silva 3, Salvador Salvador 2, Leonel Fernandes 1, Luís Frade 1, Fábio Magalhaes 1.
Varin skot: Gustavo Capdeville 11, 31% – Diogo Marques 2, 15%.
Handbolti.is fylgdist með leiknum í textalýsingu hér fyrir neðan.