Fram tók afgerandi stöðu í öðru sæti Olísdeildar kvenna í kvöld með sannfærandi sigri á Haukum, 26:23, í þriðja uppgjöri liðanna í deildinni á tímabilinu. Fram hefur unnið í öll skiptin og stendur þar af leiðandi vel að vígi í keppninni um annað sætið, tveimur stigum á undan Haukum auk þess að standa betur að vígi í innbyrðis viðureignum.
Fram var marki yfir í hálfleik, 13:12. Liðið tók frumkvæðið framan af síðari hálfleik þegar sóknarleikur Hauka var í handaskolum um hríð.
Skot framhjá í lokin
Meðan þessu fór fram í Lambhagahöllinni skildu Selfoss og Grótta jöfn, 23:23, í dramatískum leik í Sethöllinni á Selfossi.
Heimaliðið var með boltann undir lokin og gat tryggt sér sigurinn. Það lánaðist ekki þegar boltinn komst í hendur Gróttukvenna afar óvænt 10 sekúndum fyrir leikslok. Gróttuliðið náði hraðaupphlaupi en tókst að ekki að skora. Skotið fór framhjá og þar við sat, skiptur hlutur í jöfnum og skemmtilegum leik.
Stigið skilar Selfossliðinu einu í fjórða sæti, einu stigi fyrir ofan Stjörnuna þegar fjórar umferðir eru eftir.
Grótta er áfram neðst en aðeins munar einu stigi á henni og ÍBV. Botnbaráttan því áfram opin. Grótta sækir Hauka heima á laugardaginn en ÍBV leikur við Stjörnuna í Hekluhöllinni á laugardaginn.
Stórleikur helgarinnar verður á laugardaginn í Lambhagahöllinni þegar Íslandsmeistarar Vals sækja Framara heim.
Staðan og næstu leikir í Olísdeildum.
Fram – Haukar 26:23 (13:12).
Mörk Fram: Þórey Rósa Stefánsdóttir 5, Valgerður Arnalds 5, Steinunn Björnsdóttir 5, Alfa Brá Hagalín 4 (8 sköpuð færi), Lena Margrét Valdimarsdóttir 3 (7 sköpuð færi), Berglind Þorsteinsdóttir 3/3, Harpa María Friðgeirsdóttir 1.
Varin skot: Darija Zecevic 15, 39,5%.
Mörk Hauka: Elín Klara Þorkelsdóttir 7/1 (9 sköpuð færi), Inga Dís Jóhannsdóttir 7, Rut Arnfjörð Jónsdóttir 4, Sonja Lind Sigsteinsdóttir 3, Thelma Melsted Björgvinsdóttir 1, Ragnheiður Ragnarsdóttir 1.
Varin skot: Margrét Einarssdóttir 10/1, 30,3% – Elísa Helga Sigurðardóttir 1, 25%.
Tölfræði leiksins hjá HBStatz.
Selfoss – Grótta 23:23 (11:10).
Mörk Selfoss: Sara Dröfn Ríkharðsdóttir 6, Perla Ruth Albertsdóttir 4, Elínborg Katla Þorbjörnsdóttir 3, Hulda Dís Þrastardóttir 3, Katla María Magnúsdóttir 3 (7 sköpuð færi), Hulda Hrönn Bragadóttir 2, Harpa Valey Gylfadóttir 1 (7 sköpuð færi), Eva Lind Tyrfingsdóttir 1.
Varin skot: Ágústa Tanja Jóhannsdóttir 10, 30,3%.
Mörk Gróttu: Katrín Anna Ásmundsdóttir 6, Þóra María Sigurjónsdóttir 3, Karlotta Óskarsdóttir 3, Ída Margrét Stefánsdóttir 3/1 (8 sköpuð færi), Edda Steingrímsdóttir 2, Rut Bernódusdóttir 2, Katrín Helga Sigurbergsdóttir 2, Hrafnhildur Hekla Grímsdóttir 1, Arndís Áslaug Grímsdóttir 1.
Varin skot: Andrea Gunnlaugsdóttir 9/1, 36% – Anna Karólína Ingadóttir 1, 25%.
Tölfræði leiksins hjá HBStatz.