- Auglýsing -
- Auglýsing -

Fram færist skrefi nær úrslitum

Stefán Arnarsson, þjálfari Fram. Mynd/Egill Bjarni Friðjónsson

Fram stendur vel að vígi eftir að hafa unnið ÍBV öðru sinni í undanúrslitum Olísdeildar kvenna í handknattleik í Vestmannaeyjum í kvöld, 20:18, eftir að jafnt var að loknum fyrri hálfleik, 9:9. Framliðinu vantar þar með aðeins einn vinning til viðbótar til þess að komast í úrslit um Íslandsmeistaratitilinn.


Varnarleikurinn var í öndvegi í Vestmannaeyjum í kvöld og markverðir beggja liða, Hafdís Renötudóttir hjá Fram og Marta Wawrzykowska, ÍBV, voru vel með á nótunum frá upphafi til enda.


Fram náði örlitlu frumkvæði snemma leiks en ÍBV sótti í sig veðrið og var með yfirhöndina lengst af áður en Steinunn Björnsdóttir og Stella Sigurðardóttir sáu til þess að jafnt var þegar gengið var til búningsklefa í hálfleik, 9:9.


Framarar tóku af skarið þegar kom fram í síðari hálfleik og slitu sig frá Eyjaliðinu sem átti í mestu vandræðum í sókninni gegn sterkri vörn Fram og Hafdísi í markinu. Fram náði mest fimm marka forksoti, 18:13, í kjölfar þess að ÍBV var í eina og hálfa mínútu þremur leikmönnum færri. Níu mínútum fyrir leikslok hafði ÍBV aðeins skoraði fjögur mörk í síðari hálfleik.


Undir lokin reyndi ÍBV-liðið hvað það gat til þess að minnka muninn og krækja í framlengingu. Það tókst þeim ekki og fyrir vikið er staða liðsins orðin erfið í einvíginu.


Sunna Jónsdóttir stóð upp úr í liði ÍBV auk Wawrzykowska markvarðar.
Karen átti stórleik fyrir Fram og einnig var Steinunn afar öflug eins og aðrir varnarmenn liðsins auk Hafdísar markvarðar sem reyndist ÍBV-liðinu óþægur ljár í þúfu.


Mörk ÍBV: Sunna Jónsdóttir 7, Harpa Valey Gylfadóttir 2, Hrafnhildur Hanna Þrastardóttir 2, Marija Jovanovic 1, Lina Cardell 1, Karolina Olszowa 1, Bríet Ómarsdóttir 1, Elísa Elíasdóttir 1, Aníta Björk Ómarsdóttir 1, Ingbjörg Olsen 1.
Varin skot: Marta Wawrzykowska 11, 39,3%.


Mörk Fram: Karen Knútsdóttir 10/6, Steinunn Björnsdóttir 2, Kristrún Steinþórsdóttir 2, Perla Ruth Albertsdóttir 2, Tinna Valgerður Gísladóttir 1, Harpa María Friðgeirsdóttir 1, Stella Sigurðardóttir 1, Þórey Rósa Stefánsdóttir 1.
Varin skot: Hafdís Renötudóttir 14/2, 43,8%.

Öll tölfræði leiksins er hjá HBStatz.

Handbolti.is fylgdist með leiknum í stöðu- og textauppfærslu hér fyrir neðan.

- Auglýsing -
- Auglýsing -

Nýjustu fréttir

- Auglýsing -