Selfoss og Fram skildu með skiptan hlut eftir viðureign liðanna í 7. umferð Olísdeildar kvenna í handknattleik í Sethöllinni á Selfossi í kvöld, 27:27. Harpa Valey Gylfadóttir skoraði síðasta mark leiksins 45 sekúndum fyrir leikslok og reyndist það vera markið sem tryggði Selfossliðinu annað stigi að viðbættri markvörslu Cornelia Hermansson á síðustu sekúndum.
Í lengst af jöfnum og skemmtilegum leik var staðan einnig jöfn þegar fyrri hálfleikur var að baki, 15:15. Framarar voru sterkari framan af og náðu m.a. þriggja marka forskoti um skeið í fyrri hálfleik, 11:8. Selfossliðið náðu fjögurra marka forskoti í síðari hálfleik, 22:18, en tókst ekki að láta kné fylgja kviði.
Framliðið jafnaði metin, 22:22, þegar 11 mínútur voru til leiksloka. Eftir það mátti vart á milli liðanna sjá og niðurstaðan eftir því.
Fram er áfram í öðru sæti Olísdeildar með 10 stig eftir sjö leiki, fjórum stigum á eftir Val. Selfoss er með sex stig, komst sjónarmun upp fyrir ÍBV sem tekur á móti Haukum á morgun í síðasta leik 7. umferðar.
Staðan og næstu leikir í Olísdeildum.
Mörk Selfoss: Perla Ruth Albertsdóttir 7/2, Katla María Magnúsdóttir 6, Harpa Valey Gylfadóttir 5, Eva Lind Tyrfingsdóttir 3, Adela Eyrún Jóhannsdóttir 2, Arna Kristín Einarsdóttir 2, Hulda Dís Þrastardóttir 1, Inga Sól Björnsdóttir 1.
Varin skot: Cornelia Linnea Hermansson 13, 33,3% – Ágústa Tanja Jóhannsdóttir 0.
Mörk Fram: Alfa Brá Hagalín 7, Steinunn Björnsdóttir 5, Hildur Lilja Jónsdóttir 4/1, Karen Knútsdóttir 4/3, Íris Anna Gísladóttir 4, Kristrún Steinþórsdóttir 1, Erna Guðlaug Gunnarsdóttir 1, Sóldís Rós Ragnarsdóttir 1.
Varin skot: Darija Zecevic 4, 22,2% – Ethel Gyða Bjarnasen 2, 28,6% – Andrea Gunnlaugsdóttir 0.