- Auglýsing -

Lögðu grunn að sigrinum í fyrri hálfleik

Þorsteinn Gauti Hjálmarsson leikmaður Fram hefur leikið sína fyrstu leiki fyrir finnska landsliðið í handknattleik. Mynd/Eyjólfur Garðarsson

Framarar báru sigurorð af Víkingi, 25:23, í upphafsleik 16. umferðar Olísdeildar karla í handknattleik í Framhúsinu í dag. Fram var sjö mörkum yfir að loknum fyrri hálfleik, 14:7. Segja má að góður fyrri hálfleikur hafi lagt grunn að sigrinum.

Framliðið hefur þar með náð 14 stigum í deildinni og situr áfram í níunda sæti. Vafalaust gráta menn nú töpuð stig fyrir HK fyrir hálfum mánuði.


Framliðið lék vel í fyrri hálfleik. Varnarleikurinn var öflugur og ef undan eru skildar fyrstu 10 mínútur leiksins þá komust Víkingar lítt áleiðis. Lárus Helgi Ólafsson, markvörður Fram, reyndist Víkingum erfiður og Vilhelm Poulsen fór á kostum í sókninni og skoraði m.a. sex mörk. Ekki bætti úr skák að á tíðum gengu sendingar illa manna á milli hjá Víkingum.


Víkingar hertu upp hugann í síðari hálfleik. Þeir hófust handa við að saxa á forskot Framara. Um miðjan síðari hálfleik var munurinn tvö mörk. 19:17. Nær komust lánlausur leikmenn Víkings ekki. Framarar héldu sjó og fögnuðu góðum sigri.


Mörk Fram: Vilhelm Poulsen 7, Þorsteinn Gauti Hjálmarsson 5, Kristinn Hrannar Bjarkason 3, Ólafur Jóhann Magnússon 3, Rógvi Dahl Christiansen 3, Breki Dagsson 3, Stefán Darri Þórsson 2.
Varin skot: Lárus Helgi Ólafsson 14, 40%.

Mörk Víkings: Jóhann Reynir Gunnlaugsson 6/3, Hjalti Már Hjaltason 5, Jóhannes Berg Andrason 3, Gunnar Valdimar Johnsen 3, Pétur Júníusson 1, Benedikt Elvar Skarphéðinsson 1, Styrmi Sigurðsson 1, Jón Hjálmarsson1, Arnar Gauti Grettisson 1, Guðjón Ágústsson 1.
Varin skot: Jovan Kukobat 5, 31,3% – Sverrir Andrésson 5, 26,3%.


Öll tölfræði leiksins er hjá HBStatz.

Stöðu og næstu leiki í Olísdeild karla má finna hér.

Handbolti.is fylgdist með leiknum í stöðu- og textauppfærslu hér fyrir neðan.

- Auglýsing -
- Auglýsing -

Nýjustu fréttir

- Auglýsing -