Framarar unnu Selfyssinga í kaflaskiptum leik, 28:24, í upphafsviðureign 17. umferðar Olísdeildar karla í handknattleik í Lambhagahöllinni í Úlfarsárdal í kvöld. Framarar lyftu sér upp fyrir Hauka með sigrinum og sitja í fimmta sæti með 19 stig. Selfoss rekur áfram lestina þegar fimm umferðir eru eftir með sex stig og róðurinn þyngist fremur en hitt.
Meiðsli Tryggva Garðars Jónssonar leikmanns Fram tveimur og hálfri mínútu fyrir leikslok skyggðu á sigurgleðina í Lambhagahöllinni. Óttast er að Tryggvi Garðar hafi slitið hásin en það mun væntanlega skýrast betur fljótlega.
Selfyssingar hófu leikinn í kvöld af miklum krafti. Þeir voru yfir allan fyrri hálfleikinn. Mestur varð munurinn fjögur mörk og það oftar en einu sinni. Að loknum fyrri hálfleik var Selfossliðið yfir, 15:12.
Framan af síðari hálfleik héldu leikmenn Selfoss fengnum hlut. Þeir áttu þess kost að ná fjögurra marka forskoti í stöðunni 17:14 en lánaðist það ekki. Uppúr því jöfnuðu Framarar metin og komust síðan yfir, 18:17, með fjórum mörkum í röð. Eftir það áttu leikmenn Selfoss fremur á brattann að sækja. Ekki hjálpaði það þeim að Arnór Máni Daðason markvörður mætti til leiks og varði vel.
Marel Baldvinsson skoraði sitt þriðja mark og kom Fram þremur mörkum yfir, 24:21, þegar sjö mínútur voru til leiksloka. Eiður Rafn Valsson skoraði afar gott mark fyrir Fram úr hægra horni fjórum mínútum fyrir leikslok. Þar með komst Fram fjórum mörkum yfir, 26:22, og staðan var orðin góð.
Í kjölfarið fóru Framarar illa að ráði sínu þegar þeir misstu tvo leikmenn af velli í tvær mínútur. Tveimur og hálfri mínútu fyrir leikslok meiddist Tryggvi Garðar eins og áður sagði. Framarar stóðu af sér síðustu mínúturnar og unnu með þriggja marka mun.
Staðan og næstu leikir í Olísdeild karla.
Mörk Fram: Tryggvi Garðar Jónsson 7, Marel Baldvinsson 5, Eiður Rafn Valsson 5/1, Ívar Logi Styrmisson 4, Bjartur Már Guðmundsson 2, Rúnar Kárason 2, Dagur Fannar Möller 2, Arnar Snær Magnússon 1.
Varin skot: Arnór Máni Daðason 8/1, 42,1% – Lárus Helgi Ólafsson 3, 18,8%.
Mörk Selfoss: Gunnar Kári Bragason 7, Hans Jörgen Ólafsson 4, Sölvi Svavarsson 3/2, Hannes Höskuldsson 3, Sveinn Andri Sveinsson 3, Tryggvi Sigurberg Traustason 2, Jason Dagur Þórisson 1, Sverrir Pálsson 1.
Varin skot: Vilius Rasimas 8, 26,7% – Jón Þórarinn Þorsteinsson 1, 14,3%.
Tölfræðin hjá HBStatz.