Eftir þrjá tapleiki í röð, tvo í deildinni og einn í bikarkeppninni, þá sneru Framarar við blaðinu í kvöld þegar þeir lögðu ÍR, 31:24, í níundu umferð Olísdeildar kvenna í handknattleik í Skógarseli í Breiðholti. Eftir jafnan fyrri hálfleik þá tók Fram völdin í síðari hálfleik og herti tökin jafnt og þétt til leiksloka. Staðan í hálfleik var 14:14.
Fram er þar með komið upp að hlið ÍBV í þriðja til fjórða sæti með 10 stig. ÍR er þrepi neðar með átta stig.
Miklu munaði fyrir ÍR-liðið að Karen Tinna Demian var ekki með í kvöld en hún hefur verið kjölfesta liðsins, ekki aðeins í vetur heldur einnig á síðustu leiktíð. Fyrir vikið mæddi mjög á Söru Dögg Hjaltadóttur sem kom til ÍR í sumar frá Val á lánasamningi til eins árs. Sara Dögg skoraði átta mörk og stóð á bak við sex sköpuð færi.
Alfa Brá Hagalín Oddsdóttir og Lena Margrét Valdimarsdóttir léku vel fyrir Fram. Þær skoruðu samanlagt níu mörk og voru með 12 sköpuð færi. Landsliðskonan Þórey Rósa Stefánsdóttir nýtti reynslu sína og skoraði sjö mörk í níu tilraunum.
Staðan og næstu leikir í Olísdeildum.
Mörk ÍR: Sara Dögg Hjaltadóttir 8/6, Sigrún Ása Ásgrímsdóttir 5, Sylvía Sigríður Jónsdóttir 3, Hanna Karen Ólafsdóttir 3, Matthildur Lilja Jónsdóttir 2, Ásthildur Bertha Bjarkadóttir 2, María Leifsdóttir 1.
Varin skot: Ísabella Schöbel Björnsdóttir 6, 17,1% – Hildur Öder Einarsdóttir 2, 50%.
Mörk Fram: Þórey Rósa Stefánsdóttir 7, Elna Ólöf Guðjónsdóttir 6, Harpa María Friðgeirsdóttir 6, Lena Margrét Valdimarsdóttir 5/3, Alfa Brá Hagalín 4, Sóldís Rós Ragnarsdóttir 1, Erna Guðlaug Gunnarsdóttir 1, Svala Júlía Gunnarsdóttir 1.
Varin skot: Andrea Gunnlaugsdóttir 8, 32% – Ethel Gyða Bjarnasen 2.