- Auglýsing -
- Auglýsing -

Framarar tuskuðu meistarana til

Fram, meistarar meistaranna 2021. Mynd/Egill Bjarni Friðjónsson
- Auglýsing -

Fram vann Íslandsmeistara KA/Þór örugglega, 28:21, meistarakeppni HSÍ í handknattleik kvenna í KA-heimilinu í dag og náði þar með að svara fyrir tap í meistarakeppninni fyrir ári síðan þegar KA/Þór vann sinn fyrsta stóra bikar. Staðan var jöfn, 11:11, í hálfleik í KA-heimilinu í dag.


Í fyrri hálfleik var jafnt á flestum tölum og fátt sem benti til að botninn dytti úr hjá öðru hvoru liðinu þegar kæmi fram í síðari hálfleik eins og raun varð á.

Hildur Þorgeirsdóttir og Steinunn Björnsdóttir lyfta meistarabikarnum á loft. Mynd/Skapti Hallgrímsson, akureyri.net


Hafdís Renötudóttir byrjaði síðari hálfleik af krafti í marki Fram, hún sló tóninn með nokkrum vörðum skotum, ekki síst úr opnum færum. Fram-liðið nýtti sér það til fullnustu og byggði hratt upp gott forskot svo að um miðjan síðari hálfleik var munurinn orðinn sjö mörk, 20:13.


Sóknarleikurinn hrundi til grunna hjá KA/Þórsliðinu og það virtist vera sama hvað reynt var, hvorki gekk né rak. Leikmenn urðu óstyrkir og virtust missa trú á verkefnið. Einföld mistök reyndust mörg og dýr. Sviðsskrekkur varð greinilegur hjá meisturunum þegar erfiðleikarnir knúðu á dyrnar.
Fram hélt öruggri forystu með frábærri vörn og hröðum sóknarleik. Sjö marka forskotið hélst alveg til loka.

Hafdís Renötudóttir markvörður Fram og Sigurður Hjörtur Þrastarson huga að Rakel Söru Elvarsdóttur í leiknum í dag eftir að hún varð fyrir höggi. Mynd/Skapti Hallgrímsson, akureyri.net


Fram-liðið lítur afar vel út. Svínn Emma Olsson, sem fengin var til þess að leysa af Steinunni Björnsdóttur meðan hún er frá vegna meiðsla, virðist hvalreki. Olsson er nausterk og halda engin bönd, hvorki í vörn né sókn. Hún og Stella Sigurðardóttir mynda afar öflugt teymi í miðri vörn liðsins.

Með Hafdísi markvörð í formi fyrir aftan verður Fram-liðið óárennilegt.


Mörk KA/Þórs: Rakel Sara Elvarsdóttir 6, Martha Hermannsdóttir 5, Krístin A. Jóhannsdóttir 2, Unnur Ómarsdóttir 2, Hulda Bryndís Tryggvadóttir 2, Sólveig Lára Kristjánsdóttir 1, Ásdís Guðmundsdóttir 1, Rut Arnfjörð Jónsdóttir 1.
Varin skot: Hafdís Renötudóttir 14, Írena Björk Ómarsdóttir 1.

Mörk Fram: Emma Olsson 8, Karen Knútsdóttir 6, Þórey Rósa Stefánsdóttir 6, Hildur Þorgeirsdóttir 3, Ragnheiður Júlíusdóttir 3, Erna Guðlaug Gunnarsdóttir 1, Harpa María Friðgeirsdóttir 1.
Varin skot: Matea Lonac 11, Sunna Guðrún Pétursdóttir 2.

Handbolti.is var í KA-heimilinu í dag og fylgdist með leiknum í stöðu- og textauppfærslu.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -