„Hingað til hef ég sloppið vel við covid, en alls sex leikmenn í liðinu hafa smitast,“ sagði Kristján Örn Kristjánsson, öðru nafni Donni, handknattleiksmaður hjá PAUC, Aix, í Frakklandi við handbolta.is í gær. Aix er bær um 30 km norður af Marseille í suðurhluta Frakklands.
Donni varð að bakka út úr landsliðinu á elleftu stundu á dögunum eftir að samherjar hans í PAUC-liðinu smituðust og Donni varð að fara í sóttkví.
„Eins og er þá æfum við á fullu og okkur er sagt að það verði leikið í deildinni áfram en það mega ekki vera áhorfendur á leikjum, að minnsta kosti ekki þennan mánuðinn,“ sagði Donni sem er 22 ára gamall og flutti til Aix í sumar ásamt kærustu. PAUC hefur aðeins leikið þrjá leiki í deildinni, alla á útivelli. Næstu leikir eru í óvissu, ekki síst vegna veikinda leikmanna í flestum liðum.
„Framhaldið er þess vegna mjög óljóst hérna eins og staðan er. Við höfum aðeins náð þremur leikjum á þessu tímabili, og mér skilst að næsta leik verði einnig frestað vegna smita í hinu liðinu. Það kemur betur í ljós á næstu dögum,“ sagði Donni.
Útgöngubann og full sjúkrahús
Donna og kærustu hefur mætt allt annar veruleiki en þeim óraði fyrir í sumar. Kórónuveiran hefur leikið lausum hala og sett strik í reikninginn, svo mjög að allan þennan mánuð er útgöngubann í Frakklandi.
Tugir þúsunda veikjast á hverjum degi og víða er orðið ófremdarástand á sjúkrahúsum, að sögn Dönna. „Staðan er sú þessa dagana að 86.000 smit voru greind í gær [laugardagur], og sjúkrahúsin eru að fyllast. Þar af leiðandi er maður er ekki bjartsýnn á að við náum að halda þessu leikjaplani áfram. Við megum ekki fara út úr húsi þessa dagana nema að vera með leyfisbréf. Annars er sektin 135 evrur fyrir brot á þeim lögum,“ sagði Donni sem viðurkennir að hugurinn leiti oft heim til Íslands um þessar mundir.
Gerum það besta úr þessu
„Þetta er alls ekki eins og ég ímyndaði mér að atvinnuferilinn minn færi af stað. Það að mega ekki fara neitt nema á æfingar og í matvörubúð reynir á. Við konan höfum reynt að gera það besta úr þessu. Vonum bara að ástandið haldist ekki svona strangt mikið lengur. Því er ekki að leyna að hugurinn ratar oft heim til Íslands í þessum aðstæðum,“ segir Donni í samtali við handbolta.is í gær.