- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -

Framkoma aðalstjórnar er til skammar – Er klofningur yfirvofandi?

Ekki eru öll kurl kominn til grafar eftir ákvörðun aðalstjórnar ÍBV um breytta tekjuskiptingu milli deilda. Mynd/Ívar
- Auglýsing -

Grétar Þór Eyþórsson fráfarandi formaður handknattleiksráðs ÍBV segir framtíð handknattleiks í Vestmannaeyjum vera í hættu eftir ákvörðun aðalstjórnar ÍBV um breytta tekjuskiptingu á milli knattspyrnudeildar og handknattleiksdeildar.

Hann viti til að leikmenn leiti útgönguleiða úr samningum við ÍBV. Svo alvarlegum augum líti þeir á stöðuna. Eins sé ljóst að mjög erfitt verði að fá sjálfboðaliða til starfa við þjóðhátíð. Félagið sé trauðla starfhæft án sjálfboðaliða handknattleiksráðs sem hafi á undanförnum árum lagt fram vinnu umfram það sem ráðið hafi fengið til baka í jafnri skiptingu tekna.

Aðalfundur breytti engu

Aðalfundur ÍBV, sem haldin var í gærkvöld, breytti engu varðandi þær breytingar sem standi fyrir dyrum af hálfu aðalstjórnar, vegna skiptingu tekna af sameiginlegum frá fjáröflunum undir hatti aðalstjórnar. Framvegis verður hlutur knattspyrnudeildar 65% og handknattleiksdeildar 35%. Hingað til hefur tekjunum verið jafnt skipt.

Viðmótið er til skammar

„Viðmót aðalstjórnar í okkar garð er til skammar. Aðalstjórn er gjörsamlega vanhæf. Menn tala eins og þessi breyting hafi verið unnin í samstarfi. Það er bara rangt. Okkur var stillt upp og settir afarkostir,“ segir Grétar Þór og var ómyrkur í máli.

Vandræði á þjóðhátíð

„Ef menn sitja áfram við sinn keip þá er alveg ljóst að aðalstjórn á eftir að verða í mikum vandræðum með að fá fólk til starfa við margar fjáraflanir þar sem nú fer vinnuframlag okkar í handboltanum líka niður í 35 prósent. Menn eiga eftir að lenda í vandræðum við eitt og annað í kringum þjóðhátíðina sem er á næstu grösum vegna þess að margir sjálfboðaliðar ætla ekki að rétta fram litla fingur til aðstoðar.“

Hlutirnir ganga ekki upp

„Félagið mun ekki ganga upp ef vinnuframlag handboltans við fjáraflanir á vegum aðalstjórnar fer niður í 35 prósent. Eins og staðan hefur verið þá hefur framlag okkar verið 70 prósent á móti 30 prósentum frá fótboltanum þótt tekjuskiptingin hafi verið jöfn,“ segir Grétar Þór sem er hættur að starfa fyrir ÍBV og hefur munstrað sig í skipsrúm. Grétar Þór hefur fengið pláss á einu glæsilegasta uppsjávarskipi landsins, Sigurði VE, og sér fram á að verða í róðri á þjóðhátíð.

Aðalstjórnar að koma saman nýju ráði

Eins og kom fram í yfirlýsingu handknattleiksráðs í gær þá hefur það sagt af sér og lýst yfir vantrausti á aðalstjórn ÍBV. Grétar Þór segir að það komi í hlut aðalstjórnar að koma saman nýju handknattleiksráði. Miðað við núverandi stöðu geti það reynst þrautin þyngri.

Margir lausir endar

Nú í dag á eftir hnýta lausa enda vegna næsta keppnistímabils. M.a. stendur út af borðinu að ganga frá samningum við þjálfara meistaraflokks karla og leikmenn, kaupa búninga og skó, huga að þátttöku í Evrópukeppni, skipuleggja æfingaferðir upp á land, og svo megi lengi telja.

Ætlar ekki að koma nálægt starfinu

„Þeir finna vafalaust enga til þess að sitja í handknattleiksráðinu. Ég ætla ekki að koma nálægt þessu. Ég get ekki ímyndað mér að nokkur vilji starfa fyrir handknattleiksráðið og leggja fram að minnsta kosti fimmtíu prósent starf við fjáraflanir og fá í staðinn um einn þriðja af innkomunni,“ segir Grétar Þór og bætir við að miðað við óbreytt ástand séu ekki nema tvær leiðir færar.

Kannski best að kljúfa sig út úr ÍBV

„Annarsvegar er að handboltinn leggist af í Vestmannaeyjum og hin sé að handboltinn kljúfi sig út úr ÍBV og stofni nýtt félag. Við gætum þá fengið aðra hverju þjóðhátið. Ég hugsa að það geti orðið farsælasta lausnin, það er að kljúfa félagið, og kveðja samstarf sem er harla lítils virði eins og sakir standa,“ segir Grétar Þór sem hefur þungar áhyggjur af ástandinu.

Flótti leikmanna?

„Eins og staðan er núna þá veit ég að nokkrir leikmenn eru að kanna rétt sinn til þess að slíta samningum. Við erum í svo alvarlegri stöðu eftir það sem á undan er gengið með ákvörðunum aðalstjórnar,“ segir Grétar Þór og leggur áherslu á orð sín.

Stillt sem fýlupúkum og settir afarkostir

„Aðalstjórn hefur hreinlega sagt handboltafólki í Eyjum að það sé óæðra öðrum innan ÍBV. Okkur er stillt upp sem fýlupúkum sem vilja ekki vinna með öðrum. Vandinn er sagður liggja hjá okkur og að við viljum ekki fá niðurstöðu. Málið er hinsvegar það að þegar okkur er stillt upp við vegg og settir afarkostir þá er ekki um neitt að semja,“ segir Grétar Þór Eyþórsson fráfarandi formaður handknattleiksráð ÍBV í samtali við handbolta.is í morgun.


- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -