„Þetta var alla vega ekki nógu góður leikur af okkar hálfu. Við komum flatir til leiks og slakir varnarlega,“ sagði Ágúst Þór Jóhannsson þjálfari Vals sem mátti gera sér að góðu að hans menn töpuðu með fimm marka mun, 32:27, á heimavelli fyrir FH í annarri umferð Olísdeildar karla í handknattleik í kvöld. Valsliðið var oftar en einu sinni tíu mörkum undir í síðari hálfleik og beið nánast afhroð á heimavelli þótt aðeins hafi tekist að laga stöðuna á síðustu 10 mínútum viðureignarinnar.
„Ég var að vonast til þess að við kæmum með smá krafti inn í síðari hálfleik en það varð ekki raunin. Í raun var leikurinn búinn þegar 20 mínútur voru eftir. Menn sýndu smá karakter í lokin en frammistaðan var ekki nægilega góð og eitthvað sem við verðum að leggjast yfir.“
„Við vorum bara ekki á deginum okkar. Alltof margir voru fjarri sínu besta. Við verðum að setjast yfir hvað fór úrskeiðis áður en við mætum Þór í næstu umferð,“ sagði Ágúst Þór Jóhannsson þjálfari Vals.
Valur og FH hafa þar með einn vinning hvort lið eftir tvær fyrstu umferðir Olísdeildar karla.
Lengra viðtal við Ágúst Þór er í myndskeiði hér fyrir neðan.