„Hún var svo sannarlega vonbrigði,“ sagði Eyþór Lárusson þjálfari Selfoss um frammistöðu liðsins í samtali við handbolta.is í dag eftir að Selfossliðið tapaði með níu marka mun fyrir Fram, 40:31, í Olísdeild kvenna í handknattleik. Leikið var í Lambhagahöll Framara í Úlfarsárdal.
„Mér fannst við koma illa inn inn í leikinn, jafnvel þótt við værum með yfirhöndina framan af. Varnarleikurinn og líkamstjáningin sem við sýndum var léleg. Við náðum okkur aldrei út úr því,“ sagði Eyþór og tók undir að það hafi verið von hjá Selfossliðinu að snúa við taflinu þá rauk vonin út veður og vind í upphafi síðari hálfleiks þegar Framliðið gekk á lagið og náði góðu forskoti, gerði nánast út um leikinn.
„Staðan á okkur var þannig að erfitt var að vinda ofan af vandanum eftir að leikurinn er hafinn,“ sagði Eyþór ennfremur.
Lengra viðtal er við Eyþór í myndskeiði hér fyrir ofan.
Tíðindamaður handbolta.is lenti í örlitlum tæknilegum vandræðum sem varð til þess að brúnin lyftist aðeins á Eyþóri þegar á viðtalið leið.
Tölfræði leiksins hjá HBStatz.