- Auglýsing -
- Auglýsing -

Fregna beðið af samningi Dags við Króata

Dagur Sigurðsson hefur þjálfað japanska landsliðið frá því snemma árs 2017. Mynd/EPA
- Auglýsing -

Nærri tvær vikur eru liðnar síðan það spurðist út með fréttum króatískra fjölmiðla að Dagur Sigurðsson væri efstur á óskalista króatíska handknattleikssambandsins í leit þess að þjálfara fyrir karlalandsliðið. Því var meira að segja haldið fram að samkomulag væri svo gott sem í höfn á milli Dags og Króata og hann yrði þar með fyrsti útlendingurinn til þess að stýra króatíska karlalandsliðinu í handknattleik.

Kom á óvart

Í kjölfar þessara fregna tilkynnti japanska handknattleikssambandið 9. febrúar að Dagur hafi sagt upp samningi sínum um þjálfun karlandsliðsins hinn 3. febrúar. Mun ákvörðun Dags hafa komið forráðamönnum japanska handknattleikssambandsins á óvart. Samningur Dags við japanska sambandið átti að renna út eftir Ólympíuleikana í sumar þar sem japanska landsliðið tekur þátt. Eftir því sem handbolti.is hefur fregnað mun ekki hafa staðið til af hálfu japanska sambandsins né Dags að halda samstarfi áfram eftir leikana.

Lausir endar í Japan?

Þýski handknattleiksvefurinn handball-world segir frá því í morgun að fátt sé að frétta af samningamálum. Ekki fáist eitt orð upp úr Degi né forráðamönnum króatíska handknattleikssambandsins um það hver staðan sé.

Handball-World segir ennfremur að hægt gangi að binda enda með formlegum hætti á starfslok Dags hjá japanska handknattleikssambandinu. Fyrr en allir endar verða hnýttir í þeim efnum getur Dagur ekki ráðið sig annað sem landsliðsþjálfari.

Forkeppni ÓL á næstu grösum

Fyrir dyrum stendur að króatíska karlalandsliðið taki þátt í forkeppni Ólympíuleikanna frá 14. til 17. mars ásamt landsliðum Þýskalands, Alsír og Austurríkis. Tveir farseðlar á leikana liggja á lausu og þar af leiðandi eftir miklu að slægjast.

Króatar hafa þegar tilkynnt Alþjóða handknattleikssambandinu um stóran hóp leikmanna sem nýr þjálfara getur valið úr til þátttöku í forkeppninni. Hvort sem Dagur Sigurðsson eða einhver annar mun stýra landsliðinu þegar á hólminn verður komið í fyrsta leik í Hannover 14. mars.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -