Eftir tvo góða vináttuleiki við færeyska landsliðið í Færeyjum um síðustu helgi hefur kvennalandsliðið í handknattleik æft hér á landi síðustu daga auk þess að leggja á ráðin fyrir viðureignir gegn ísraelska landsliðinu í forkeppni heimsmeistaramótsins um næstu helgi. Báðar viðureignir fara fram á Ásvöllum í Hafnarfirði, klukkan 15 á laugardag og á sunnudag.
Arion banki býður landsmönnum á leikina og eru vitanlega allir velkomnir enda stefnt á að mynda góða stemningu og fleyta íslenska landsliðinu yfir fyrsta hjallann á leiðinni á heimsmeistaramótið sem fram fer í Danmörku, Noregi og Svíþjóð í desember á næsta ári.
Umspilsleikirnir fara fram í apríl.
Hörkugóð mæting og frábær stemning var á heimaleikjum kvennalandsliðsins gegn Svíþjóð í apríl og við Tyrki snemma í mars í undankeppni EM.
Leikirnir í Færeyjum um síðustu helgi voru kærkominn liður í undirbúningi fyrir leikina við ísraelska landsliðið. Fyrri leikurinn við Færeyinga vannst 27:22 og sá síðari 28:23. Færeyingar eru að búa sig undir þátttöku í forkeppninni. Þeir mæta landsliði Kósovó í Istog í kvöld.
Fyrstu leikir umspilsins fóru fram í gærkvöld:
Búlgaría – Ítalía 19:25 (12:9).
Lúxemborg – Úkraína 11:30 (5:16).
Slóvakía – Lettland 46:21 (23:13).
Í kvöld mætast:
Færeyjar – Kósovó.
Grikkland – Bosnía.
Austurríki – Finnland.
Aserbaísjan – Portúgal.