„Ef mér hefði fyrirfram verið boðið jafntefli í fyrri leiknum þá hefði ég alltaf þegið það. Ég er samt pínu svekktur með að hafa ekki unnið með einu eða tveimur mörkum,“ sagði Ágúst Þór Jóhannsson þjálfari Vals þegar handbolti.is sló á þráðinn til hans eftir jafntefli Vals og BM Porriño, 29:29, í fyrri úrslitaleik liðanna í Evrópubikarkeppni kvenna sem fram fór í Porriño á Spáni í dag. Síðari úrslitaleikurinn fer fram í N1-höllinni á Hlíðarenda eftir viku.
„Á löngum köflum í leiknum lékum við gríðarleg vel við mjög erfiðar aðstæður. Stemningin og lætin voru mjög mikil,“ sagði Ágúst Þór og trúir ekki öðru en að troðið verði út úr dyrum í síðari leiknum eftir viku.
Fyllum Hlíðarenda
„Ég hef enga trú á öðru en að fólk fjölmenni á leikinn, ekki bara Valsarar heldur handboltaáhugafólk almennt komi og styðji við við bakið á stelpunum,“ sagði Ágúst Þór sem fer nú í að leggjast yfir leikinn og hefja undirbúning fyrir síðari viðureignina. Hann segir viss atriði í varnarleiknum megi gera betur.
Fengu blóð á tennurnar
„Eins og við var að búast var um hörkuleik að ræða. Fyrri hálfleikurinn var frábær af okkar hálfu, bæði í vörn og sókn. Í upphafi síðari hálfleiks fengum við á okkur tvær brottvísanir með skömmu millibili sem varð til þess að gefa leikmönnum Porriño blóð á tennurnar og þær jöfnuðu metin,“ sagði Ágúst Þór.
Héldum haus
„Mér fannst við gera vel í að halda haus síðasta korterið í jöfnum leik og frábærri stemningu í troðfullu húsi. Ég er mjög ánægður með stelpurnar og frammistöðu þeirra,“ sagði Ágúst Þór Jóhannsson þjálfari Vals í samtali við handbolta.is.
Miðasala á síðari leikinn er á stubb.is.
Evrópubikarkeppni kvenna – fréttasíða.