Hin þrautreynda norska handknattleikskona Camilla Herrem hrósaði Þóri Hergeirssyni landsliðsþjálfara í hástert eftir að norska landsliðið varð Evrópumeistari í handknattleik kvenna í gær. Herrem, sem hefur meira og minna átt sæti í norska landsliðinu í 14 ár og tekið þátt í mörgum glæstum sigrum þess sagði Þóri hafa unnið einstakt starf og sigurinn á EM væri ekki síst honum að þakka. Hún sagði Selfyssinginn oft ekki gera nægilega mikið úr eigin starfi út á við.
„Mig langar að taka sérstaklega fram að ég er mjög þakklát og ánægð með Þóri og hans frammistöðu. Hann vann einstaklega gott starf á þessu móti,“ sagði Herrem í samtali við fjölmiða eftir sigurleikinn á Frökkum þar sem bitist var um gullverðlaun mótsins.
„Þórir vann frábærlega á þessu móti, ekki síst þegar kom að leikstíl okkar, leikaðferðum og útfærslum. Hans starf er einn stærsti þátturinn í sigri okkar. Opinberlega segir Þórir oft, við, við og við en mætti sannarlega oftar hampa sjálfum sér. Hans starf á þessu móti var frábært ásamt Tonje Larsen og Mats Olsson þjálfurum. Þau verðskulda fyllilega að vera í sviðsljósinu þegar við vinnum mikla sigra,“ sagði Herrem sem er fyrirliði landsliðsins ásamt Stine Oftedal.