Hornamaðurinn lipri Andri Þór Helgason hefur skrifað undir nýjan tveggja ára samning við Handknattleiksdeild Gróttu. Hann er og hefur verið einn besti vinstri hornamaður Olísdeildarinnar undanfarin ár og einkar örugg vítaskytta. Andri er jafnframt fyrirliði Gróttuliðsins.
Andri var næstmarkahæsti leikmaður Gróttuliðsins í Olísdeildinni á keppnistímabilinu sem er nýlega lokið hjá liðinu með 98 mörk eða tæplega 4,2 mörk að meðaltali í leik. Þar af skoraði hann úr 83,3% vítakasta sinna, en 55 þeirra rötuðu í netmöskva andstæðinganna.
Arnar Daði Arnarsson þjálfari Gróttuliðsins er að vonum ánægður með áframhaldandi veru Andra á Nesinu. „Andri Helga er frábær leikmaður sem við lögðum mikla áherslu á að halda í félaginu. Það var mikill áhugi frá öðrum liðum en ánægjulegt að hann haldi tryggð við Gróttu,“ segir í tilkynningu frá handknattleiksdeild Gróttu.