Eftir sex sigurleiki í röð í Olísdeild karla tapaði Valur í fyrsta sinn frá 13. desember þegar þeir mættu Haukum á Ásvöllum í kvöld í upphafsleik 19. umferðar, 28:26, í hörkuleik. Takist FH að vinna ÍBV í Eyjum á föstudagskvöld verður staða liðsins orðin vænleg í kapphlaupinu um deildarmeistaratitilinn, fimm stig og þrjár umferðir eftir.
Valur er í öðru sæti deildarinnar með 30 stig eftir 19 leiki, þremur á eftir FH sem eins og fyrr er getið á leik til góða. Haukar fóru upp í fjórða sæti deildarinnar með sigrinum. Þeir eru jafnir ÍBV að stigum.
Síðasta tap Valsara var einnig í Hafnarfirði, reyndar annarstaðar í bænum.
Nokkrir hvíldir
Valur lék án fjögurra leikmanna í kvöld. Magnús Óli Magnússon, Tjörvi Týr Gíslason, Úlfar Páll Monsi Þórðarson og Arnar Þór Fylkisson, markvörður, fengu að safna kröftum fyrir Evrópuleik við Steaua í Búkarest á sunnudaginn. Yngri leikmenn fengu að láta ljós sitt skína, nokkrir úr U-liðinu eins og Daníel Örn Guðmundsson og Jóel Bernburg.
Jafnt var framan af leiksins á Ásvöllum. Valur yfirleitt á undan að skora. Þeir voru yfir, 10:9, þegar Haukum tókst að skora fjögur mörk í röð, 13:10 þegar 5 mínútur voru til hálfleiks. Haukar vor yfir, 15:13, þegar menn köstuðu mæðinni í hálfleik.
Þrjú hraðaupphlaup fóru í súginn
Ísak Gústafsson kom Val yfir, 20:19, með sjöunda marki sínu þegar 10 mínútur voru liðnar af síðari hálfleik. Ísak skoraði ekki mark eftir það. Haukar komust yfir á ný og i stöðunni, 24:22, rúmum tíu mínútum fyrir leikslok varði Magnús Gunnar Karlsson markvörður Hauka tvisvar sinnum skot eftir hraðaupphlaup Valsmanna. Auk þess fór þriðja hraðaupphlaup Vals út um þúfur. Ólafur Ægir Ólafsson kom Haukum þremur mörkum yfir í kjölfarið, 25:22.
Rúmum sjö mínútum fyrir leikslok fékk Þráinn Orri Jónsson rautt spjald og það bláa- til viðbótar fyrir brot á Benedikt Gunnari Óskarssyni. Anton Gylfi Pálsson og Magnús Kári Jónsson dómarar litu á upptöku til að fullvissa sig áður en þeir felldu dóm sinn. Staðan var þá 26:24, Haukum í vil.
Eftir þetta gekk í nokkru þófi við að skora mörk. Róbert Aron Hostert gat jafnað metin þegar hann fékk mjög gott færi 80 sekúndum fyrir leiklok. Allt kom fyrir ekki og Ólafur Ægir skoraði 27. markið og kom Haukum í vænlega stöðu 50 sekúndum fyrir leikslok.
Staðan og næstu leikir í Olísdeildum.
Mörk Hauka: Ólafur Ægir Ólafsson 7, Guðmundur Bragi Ástþórsson 6/3, Kristófer Máni Jónasson 4, Brynjólfur Snær Brynjólfsson 2, Geir Guðmundsson 2, Adam Haukur Baumruk 2, Tjörvi Þorgeirsson 1, Össur Haraldsson 1, Guðmundur Hólmar Helgason 1, Þráinn Orri Jónsson 1.
Varin skot: Aron Rafn Eðvarðsson 8, 34,8% – Magnús Gunnar Karlsson 4, 36,4%.
Mörk Vals: Ísak Gústafsson 7, Benedikt Gunnar Óskarsson 6/3, Róbert Aron Hostert 3, Alexander Peterson 3, Agnar Smári Jónsson 2, Allan Norðberg 2, Aron Dagur Pálsson 1, Daníel Örn Guðmundsson 1, Andri Finnsson 1.
Varin skot: Björgvin Páll Gústavsson 10, 26,3%.
Öll tölfræði leiksins hjá HBStatz.