„Fyrri hálfleikur var slakur af okkur hálfu. Við vorum bara ekki klárir í slaginn en bættum það upp með betri leik í síðari hálfleik,“ sagði Gunnar Magnússon þjálfari Aftureldingar við handbolta.is eftir sigur liðsins á Gróttu, 30:25, á heimavelli í kvöld í áttundu umferð Olísdeildar karla í handknattleik. Með sigrinum komst Afturelding upp í þriðja sæti Olísdeildar, stigi fyrir ofan Hauka sem töpuðu illa fyrir Val á sama tíma.
„Gæðamunurinn kom í ljós í síðari hálfleik,“ sagði Gunnar sem var óánægður með fyrri hálfleikinn.
„Við gerðum okkur þetta alltof erfitt fyrir með frammistöðunni í fyrri hálfleik. Við vorum með átta tæknifeila í fyrri hálfleik auk þess sem dauðafæri fóru forgörðum. Vorum sjálfum okkur verstir. Við sýndum gæði og styrk strax í upphafi síðari hálfleiks, náðum tökum á leiknum og unnum sannfærandi sigur,“ sagði Gunnar ennfremur.
Ekki skráður í sögubækur
„Þessi leikur verður ekki skráður í sögubækur okkar. Heilt yfir þá skilaði þessi leikur okkar tveimur stigum auk þess sem strákarnir sýndu ákveðinn karakter með því að rífa sig upp og klára leikinn,“ sagði Gunnar Magnússon þjálfari Aftureldingar.
Staðan og næstu leikir í Olísdeildum.