- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -

Gaman að taka þátt í þessu með stelpunum

Martha Hermannsdóttir lyftir bikarnum sem KA/Þór vann í haust í Meistarakeppni HSÍ. Mynd/HSÍ
- Auglýsing -

„Þetta er bara fyrsti titill KA/Þórs og það er rosalega sætt og ógeðslega gaman að taka þátt í þessu með stelpunum,“ sagði Martha Hermannsdóttir, fyrirliði KA/Þórs og brosti út að eyrum, eftir sigur liðsins á Fram í Meistarakeppninni í handknattleik í íþróttahúsi Fram í kvöld. Martha hefur svo sannarlega kynnst mörgu á löngum handknattleiksferli og víst er að reynsla hennar nýtist ungu liði KA/Þórs vel.

„Liðið er fullt sjálfstrausts og það er alveg ljóst að þessi sigur mun bara styrkja okkur. Við komum af fullum krafti inn í Olísdeildina þegar hún hefst undir næstu helgi. Það eru ekki mörg lið sem vinna Fram í Safamýri með sjö mörkum,“ sagði Martha ennfremur og bætti við að lið KA/Þórs hafi svo sannarlega lagt hart að sér á undirbúningstímabilinu eins og hafi m.a. komið fram í sigurleiknum í dag.

„Við tókum þátt í móti fyrir norðan á dögunum og bættum síðan tveimur æfingaleikjum við hér fyrir sunnan. Í þessum leikjum hefur gengið vel sem endurspeglaðist að þessu sinni.  Rut Jónsdóttir kom með svo mikla breidd inn í liðið. Hún er svo frábær leikmaður og gerir alla í kringum sig betri. Það er ólýsanlega gaman að spila með henni. Þess utan er breiddin að aukast í hópnum hjá okkur. Ég sé fram á skemmtilegan vetur í Olísdeildinni,“ sagði Martha

Gat ekki hugsað sér að hætta

Þrátt fyrir miklar annir, m.a. sem tannlæknir og móðir barna segist Martha ekki hafa getað hugsað sér að hætta eftir keppnistímabilið í vor þótt hún hafi eiginlega verið búin að ákveða það. Enda engin ástæða til. Martha virðist í toppformi eins og áður.  „Ég ætlaði að hætta en svo kom covid og ekki var hægt að klára keppnistímabilið almennilega. Svo kom Rut og mig langaði til að spila með henni. Ég var þess vegna bara dugleg að æfa í sumar og er í góðu standi. Úr því að svo er þá er bara gaman að vera með ef ég get eittvað hjálpað liðinu,“ sagði leikstjórnandinn þrautreyndi í liði KA/Þórs þegar handbolti.is hitti hana eftir sigurinn á Fram í Meistarakeppni HSÍ í Safamýri í kvöld.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -