- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -

Geggjað að sjá hvernig strákarnir spiluðu leikinn

Ásgeir Örn Hallgrímsson þjálfari Hauka. Mynd/Kristján Orri Jóhannsson
- Auglýsing -

„Við fórum rétt stemmdir inn í leikinn. Það var hreint geggjað að sjá hvernig strákarnir spiluðu leikinn. Hann var kannski ekki fallegur en orkan var mikil og ákefðin eftir því. Það var lykilatriðið,“ sagði kampakátur Ásgeir Örn Hallgrímsson þjálfari Hauka þegar handbolti.is hitti hann að máli eftir að Haukar jöfnuðu metin í kapphlaupinu vð ÍBV um Íslandsmeistaratitilinn í handknattleik með sigri á Ásvöllum í kvöld, 27:24. Haukar voru sjö mörkum yfir að loknum fyrri hálfleik, 17:10.

Spuður hvort það hafi verið dagskipunin að láta kné fylgja kviði eftir sigurinn í Eyjum á föstudaginn, mæta særðu ljóni af grimmd strax í upphafi, sagði Ásgeir Örn að svo mætti segja.

Lékum af skynsemi

„Við vildum sjá framhald af síðasta leik og það tókst. Um leið þá gerðum við okkur grein fyrir að kálið yrði ekki sopið þótt við næðum góðu forskoti. Róðurinn yrði ekki léttur til leiksloka því það yrði alltaf von á endurkomu frá leikmönnum ÍBV. Sú varð og raunin. Við náðum að standa af okkur áhlaupið. Lékum af skynsemi á lokakaflanum. Sóknirnar lengdust og við komumst í flestum tilfellum hjá því að missa boltann á þann hátt að það gæfi ÍBV kost á of mörgum hraðaupphlaup. Mér fannst lokakaflinn vera skynsamlega leikinn hjá strákunum,“ sagði Ásgeir sem hefur tvo sólarhringa til þess að búa sína menn undir úrslitaleikinn.

Mætum í veislu

„Menn verða bara að hugsa vel um sig og síðan mætum við í einhverja veislu á miðvikudaginn. Ég er bara ekki farinn að hugsa svo langt fram í tímann ennþá,“ sagði Ásgeir Örn Hallgrímsson þjálfari Hauka í samtali við handbolta.is á Ásvöllum í kvöld.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -