Íslendingaliðið Balingen-Weilstetten tapaði í kvöld sínum þriðja leik á keppnistímabilinu í þýsku 2. deildinni í handknattleik er það tók á móti Dessau-Roßlauer HV, 32:31. Gestirnir skoruðu sigurmarkið þremur sekúndum fyrir leikslok. Þrátt fyrir tapið stendur Balingen-Weilstetten vel að vígi í efsta sæti deildarinnar, sex stigum á undan Tus N-Lübbecke.
Oddur Gretarsson og Daníel Þór Ingason skoruðu þrjú mörk hvor fyrir Balingen-Weilstetten.
(Staðan í deildinni er neðst í greininni)
Góður sigur hjá Tuma Steini
Betur gekk hjá Tuma Steini Rúnarssyni og hans samherjum í Corburg í kvöld. Þeir unnu Lübbecke-Schwartau, 26:24, á heimavelli. Með sigrinum færðist Coburg upp um eitt sæti, upp í það tólfta. Tumi Steinn skoraði tvö mörk fyrir Corburg.
Hvorki gengur né rekur
Hvorki gengur né rekur hjá Empor Rostock. Liðið tapaði enn einu sinni í kvöld. Að þessu sinni í heimsókn til Bietigheim, 38:28. Sveinn Andri Sveinsson skoraði tvö mörk fyrir Rostock og átti ein stoðsendingu. Rostock er næst neðst og virðist eiga erfitt með að bjarga sér frá falli.
Úkraínska meistaraliðið HC Motor gerði jafntefli á útivelli við HSG Konstanz, 31:31. Roland Eradze er aðstoðarþjálfari HC Motor en aðalþjálfari er Gintaras Savukynas sem lék hér á landi um árabil á árunum í kringum aldamótin.