- Auglýsing -

Gekk samkvæmt áætlun

Erlingur Richardsson þjálfari ÍBV.- Mynd/Egill Bjarni Friðjónsson

„Við náðum nokkurnveginn að gera það sem við ætluðum okkur að gera. Varnarleikurinn var frábær á köflum,“ sagði Erlingur Richardsson, þjálfari ÍBV, í samtali við handbolta.is eftir að liðið tryggði sér sæti í úrslitum Íslandsmótsins í handknattleik með sigri í fjórða leik liðanna í Vestmannaeyjum í kvöld. ÍBV fékk þar með þrjá vinninga í undanúrslitarimmunni við Hauka sem hlutu einn vinning.


Erlingur sagði að fyrstu tíu mínútur síðari hálfleiks hafi nýst Eyjaliðinu vel við að ná forskoti sem liðið lét aldrei af hendi. „Við náðum þá þriggja marka forskoti sem við náðum að halda til loka. Í svona stemningu þá er alltaf gott og gaman að vera með yfirhöndina. Þá fær maður alla með sér,“ sagði Erlingur og bætti við að þegar öllu sé á botninn hvolft hafi allt gengið samkvæmt áætlun.


„Við megum vera stoltir með þennan árangur í viðbót við að margir ungir leikmenn hafa fengið tækfæri til þess að sýna hvað í þeim býr. Þess vegna verður gaman að sjá liðin í úrslitunum, Val og ÍBV, með slatta af ungum og uppöldum leikmönnum innan sinna vébanda,“ sagði Erlingur sem hlakkar til úrslitaeinvígisins við Val sem hefst fimmtudaginn 19. maí.


„Valur er með besta liðið sem hefur verið að vinna titlana upp á síðkastið. Þess vegna verður það okkar verkefni að vinna þá. Við verðum að sækja til þess að vinna,“ sagði Erlingur Richardsson, þjálfari ÍBV, í samtali við handbolta.is í Vestmannaeyjum í kvöld.

- Auglýsing -
- Auglýsing -

Nýjustu fréttir

- Auglýsing -