Fjölnismenn voru æfir eftir að viðureign þeirra og Þórs í umspili Olísdeildar karla í handknattleik lauk í Fjölnishöllinni í kvöld. Ástæða reiðinnar var leikhlé sem Þór tók þegar sex sekúndur voru til leiksloka í stöðunni 29:27 fyrir Þór. Þótti leikmönnum og þjálfurum Fjölnis sem þeim væri sýnd óvirðing með leikhléinu. Hugsa þeir Þórsurum og ekki síst Kristni Björgúlfssyni aðstoðarþjálfara Þórs sem tók leikhléið, þegjandi þörfina.
Kristinn baðst afsökunar á ákvörðun sinni með færslu á X. Hann segist hafa í fljótfærni talið að mun meira væri eftir af leiktímanum en raun var á og viljað koma skilaboðum til leikmanna. Alls ekki hafi staðið til að sýna þjálfurum Fjölnis, leikmönnum, starfsfólki né félaginu óvirðingu.
Gerði mistök í leik @AkureyriH og @fjolnirhkd i kvöld. Hélt að það væri meira eftir og vildi koma skilaboðum a liðið upp a framhaldið. Biðst afsökunnar og itreka að ekki stóð til að sýna óvirðingu i garð leikmanna, þjálfara, starfsfólks eða félagsins. @handboltiis @handkastid
— Kiddi Björgúlfss (@KiddiBje) April 26, 2024
Í samtali við handbolta.is sagði Kristinn að hann hafi beðið leikmenn Fjölnis afsökunar eftir leikinn og gert tilraun til að hafa samband við Sverri Eyjólfsson þjálfara Fjölnis til þess að biðjast afsökunar en ekki haft erindi sem erfiði, enn sem komið er.
Þór vann leikinn, 29:27, og er kominn yfir í einvíginu, 2:1, í leikjum talið. Fjórði leikurinn verður á Akureyri á mánudagskvöld.
Sjá einnig:
Umspil Olís karla: leikjadagskrá og úrslit