- Auglýsing -
- Auglýsing -

Gestgjafar í annað sinn

Ljósmynd/Wikipedia
- Auglýsing -

Heimsmeistaramótið í handknattleik karla fer fram í Eyptalandi frá 13. til 31. janúar á næsta ári.  Þá verða liðin 22 ár síðan Egyptar voru gestgjafara HM karla í fyrsta og eina skiptið til þess. Mótið þá þóttist takast vel miðað við þær kröfur sem þá voru gerðar til heimsmeistaramóta. Það var síðasta HM karla sem fram fór eftir að deildarkeppni var lokið í Evrópu og stóð yfir frá 2. til 15. júní. Frá og með 2001 var HM karla flutt fram í janúar, annað hvert ár.

Svíar stóðu uppi sem sigurvegarar á HM 1999 eftir sigur á Rússum, 25:24, í æsispennandi úrslitaleik þar sem Rússar voru með tveggja mark forskot að loknum fyrri hálfleik, 14:12.

Júgóslavar, þá sameiginlegt lið Serba og Svartfellinga, höfnuðu í þriðja sæti með sigri á Spánverjum, 27:24. Þjóðverjar lentu í fimmta sæti, Frakkar í sjötta og heimamenn, Egyptar, tryggðu sér sjöunda sætið með sjö marka sigri á Kúbumönnum, 35:28. Sjö efstu sætin á mótinu veittu þátttökurétt á Ólympíuleikunum í Sydney, árið eftir.

Þess má geta til fróðleiks að Tomas Svensson, markvarðaþjálfari íslenska landsliðsins, var annar markvörður Svía í sigurliðinu á HM í Egyptalandi fyrir 22 árum. Hann var með 42,9% hlutfallsmarkvörslu í mótinu. 

Leikir keppninnar fyrir 21 ári fóru fram í tveimur keppnishöllum í Kaíró, einni í Ismailia og annarri í Port Said. Að þessu sinni verður leikið í þremur höllum á stór-Kaíró svæðinu og í nýrri íþróttahöll í hinni fornu borg, Alexandríu, við Miðjarðarhafsströndina.

Sama höll en færri áhorfendur

Þrjár keppnishallanna eru nýjar en sú fjórða, sem nefnist á ensku Cairo Stadium Indoor Hall, hýsti leiki keppninnar 1999, þar á meðal úrslitaleikinn. Cairo Stadium Indoor Hall var byggð á árunum 1990 til 1991 og er stærsta keppnishöll mótsins  að þessu sinni eins og síðast. Höllin rúmar 16.900 manns í sæti. Á 1999 var leyft að selja í stæði og þá voru um 23.000 áhorfendur á úrslitaleiknum. Mjög var hresst upp Cairo Stadium Indoor Hall, fyrir fimm árum. Þar hafa mörg stærstu innanhússmót Afríku farið fram á undangengnum árum m.a. í blaki, körfuknattleik, handbolta og júdó. 

Cairo Stadium Indoor Hall er í um 10 km fjarlægð frá alþjóða flugvellinum í Kaíró en nærri 30 km eru til miðborgar Kaíró.

Hinar tvær keppnishallirnar á Kaíró svæðinu eru splunkunýjar, annarsvegar New Capital sports hall og hinsvegar sú sem kennd er við 6. október, enda mun hún vera í hjarta samnefnds úthverfis höfuðborgarinnar. Fyrrnefnda höllin rúmar 7.500 áhorfendur í sæti en hin 5.200.

Hæsta mannvirki heims í 40 aldir

Sjötta október-hverfið er ekki langt frá Giza-sléttunni með pýramídunum þremur, þar á meðal hinum stórfenglega Giza pýramída, einu magnaðasta mannvirki jarðar, og því eina sem enn uppi stendur af sjö undrum veraldar. Pýramídinn var byggður fyrir nærri 2.600 árum fyrir kristsburð og var hæsta mannvirki jarðar í 40 aldir, 137 metrar, en var 146 metrar lengst af.

Borg El Arab sports Hall í Alexandriu má heita glæný þótt hún hafi ekki verið dregin úr sjó, og rúmar 5.000 áhorfenur í sæti.  Hún var reist sérstaklega í tilefni af HM. Ráðist var í byggingu hennar eftir að ljóst var að Egyptum var úthlutað heimsmeistaramótinu. Keppnishöllin stendur nærri samnefndum fótboltavelli sem er mikið mannvirki og rúma m.a. 86.000 áhorfendur. Á þessum velli tryggði egypska landsliðið sér þátttökurétt á HM í fótbolta 2018. 

Um 20 km eru frá miðborg Alexandríu til Borg El Arab-íþróttamannvirkjunum. Og fyrir þá sem vilja bregða sér frá Alexandriu til miðborgar Kaíró er rétt að upplýsa að þar á milli eru um 200 km.

Hér fyrir neðan er kort Wikipedia um leikstaðina.

Kort/Wikipedia

Riðlakeppni mótsins stendur yfir frá 13. – 19. janúar en í henni verður leikið í átta fjögurra liða riðlum. Þrjú af fjórum liðum hvers riðils komast í milliriðlakeppni sem fram fer í fjórum sex liða riðlum frá 20. – 25. janúar.  Tvö efstu liðin í hverjum af milliriðlunum fjórum tryggja sér sæti í átta liða úrslitum 27. janúar í fjórum viðureignum. Sigurliðin halda áfram í undanúrslit tveimur dögum síðar. Loks verður leikið um verðlaun sunnudaginn 31. janúar í stóru íþróttahöllinni í Kaíró.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -

Nýjustu fréttir

- Auglýsing -