- Auglýsing -
- Auglýsing -

Get samglaðst með einhverjum hvernig sem fer

Erlingur Richardsson landsliðsþjálfari Hollands. Mynd/Hafliði Breiðfjörð

Erlingur Richardsson, landsliðsþjálfari Hollendinga í handknattleik karla, segir það óneitanlega verða svolítið sérstakt fyrir sig að mæta íslenska landsliðinu á Evrópumótinu í handknattleik karla annað kvöld. Flautað verður til leiks iMVM Dome í Búdapest klukkan 19.30.

„Fyrir utan að hafa þjálfað leikmenn sem er í landsliðinu þá verður fjölskyldan á meðal áhorfenda, margir vinir mínir úr Eyjum auk þess sem tengdasonurinn er í íslenska landsliðinu. Fjölskyldan og vinir munu væntanlega halda með íslenska liðinu,“ sagði Erlingur glaður í bragði þegar handbolti.is hitti hann að máli í dag.

„Kosturinn er sá að ég get samglaðst einhverjum hvernig sem leikurinn fer,” bætti Erlingur við.

„Auðvitað verður þetta sérstakt. Hinsvegar skiptir öllum máli fyrir mig að ná að kúpla mig frá því að vera Íslendingur og komast í hlutverk landsliðsþjálfara Hollands, hvort sem maður er að leika við íslenska landsliðið eða það ungverska sem við mættum í fyrrakvöld. Þá verður þetta bara leikurinn á gólfinu,“ sagði Erlingur.


Hollenska landsliðið vann afar óvæntan sigur á ungverska landsliðinu í upphafsleik B-riðils, 31:28 á fimmtudagskvöld. Sigurinn var ekki aðeins óvæntur fyrir margra hluta sakir heldur einnig afar sannfærandi.

Fimmti á móti 65

„Það reynir vissulega á menn á morgun eftir sigurinn á Ungverjum á fimmtudagskvöld. Við erum hinsvegar í þeim sporum að vera að stíga fyrstu skref í stórkeppni. Leikurinn á morgun verður fimmti landsleikur hollensks landsliðs í lokakeppni EM á meðan íslenska landsliðið tekur þátt í sínum 65. leik. Við erum að vinna í að festa okkur í sessi. Leikurinn á morgun er prófsteinn á það fyrir okkur. Við erum enn að sýna okkur og sanna. Því megum við ekki gleyma,“ sagði Erlingur og bætti við að sigurinn á ungverska landsliðinu hafi verið áfangi á lengri leið hollenska liðsins.

„Aðstæðurnar voru sérstakar. Við mættum liði heimamanna í vígsluleik eins glæsilegasta íþróttamannvirkis Evrópu fyrir framan 20 þúsund áhorfendur. Þess vegna var leikurinn mjög sérstakur og mikil upplifun.

Sigurinn verður einnig til þess að önnur landslið geta ekki vanmetið okkur. Á sama tíma verðum við að sýna að við séum það sterkir að getað haldið dampi,“ sagði Erlingur Richardsson, landsliðsþjálfari Hollands í samtali við handbolta.is í Búdapest í dag.

Viðureign Íslands og Hollands hefst klukkan 19.30.

- Auglýsing -
- Auglýsing -

Nýjustu fréttir

- Auglýsing -