- Auglýsing -
- Auglýsing -

Getum verið sátt við stigið

Gunnar Gunnarsson, þjálfari kvennaliðs Hauka. Mynd/Haukar
- Auglýsing -

„Þetta var gaman að getað boðið Val upp á hörkuleik,“ sagði Gunnar Gunnarsson, þjálfari kvennaliðs Hauka í samtali við handbolta.is í Schenkerhöllinni í gærkvöld eftir að Haukar og Valur skildu með skiptan hlut, 19:19, í áttundu umferð Olísdeildar kvenna í handknattleik.


„Leikurinn var gott framhald af sigurleik okkar á ÍBV á þriðjudagskvöldið. Við áttum svo sem möguleika á að skora sigurmarkið í síðustu sókninni en Valur átti sín færi líka að þessu sinni. Þegar upp er staðið þá eru úrslitin sanngjörn að mínu mati,“ sagði Gunnar.
Haukar hafa tekið miklum framförum frá upphafi tímabilsins þegar liðið steinlá fyrir Val í fyrstu umferð Olísdeildar. Gunnar sagði svo sannarlega vera. Allir hafi lagt á sig mikla vinnu til þess að bæta leik liðsins, jafnt í vörn sem sókn.


„Í fyrri leiknum vorum við níu mörkum undir í hálfleik en núna var jafnt í hálfleik. Vörnin er mun þéttari en við upphaf keppnistímabilsins auk þess sem Annika Friðheim Petersen hefur verið góð í markinu. Færslan í vörninni er orðin betri og grimmdin meiri en fyrr á tímabilinu.
Stelpurnar eru bara orðnar betri en þær voru. Sjálfstraustið hefur aukist til muna. Sigurinn í Eyjum styrkti þær mikið. Ég held að við getum verið sátt við þetta stig í dag gegn Val,“ sagði Gunnar sem horfir með eftirvæntingu fram á síðari hluta deildarkeppninnar en viðureignin í gær var sú fyrsta hjá Haukum og Val í síðari helmingi Olísdeildarinnar.

„Markmiðið er að gera betur í seinni helmingi deildarkeppninnar en í þeim fyrri. Jafntefli við Val er ágæt byrjun á þeirri leið,“ sagði Gunnar Gunnarsson, hinn þrautreyndi þjálfari kvennaliðs Hauka í samtali við handbolta.is í Schenkerhöllinni á Ásvöllum í gærkvöld.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -