- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -

Getur verið gaman að vera í „underdog“-hlutverki

Dagur Sigurðsson, landsliðsþjálfari Japans, á hliðarlínunni í leik á HM í Egyptalandi 2021. Mynd/EPA
- Auglýsing -

Dagur Sigurðsson hefur verið landsliðsþjálfari Japans í handknattleik karla í rúm fjögur ár. Á þeim tíma hefur hann jafnt og þétt byggt upp landslið til þess að keppa fyrir hönd þjóðarinnar á Ólympíuleikum á heimavelli, þeim fyrstu í Japan frá árinu 1964. Eins og kunnugt er áttu leikarnir að fara fram fyrir ári en var slegið á frest. Þrátt fyrir kórónuveirufaraldurinn hafi ekki ekki verið kveðinn í kútinn þá verða leikarnir settir á næsta föstudag og verða með öðru yfirbragði en þeir síðustu fyrir fimm árum.

Löng fjarvera

Dagur og leikmenn japanska landsliðsins hafa staðið í ströngu undanfarna mánuði og ár við undirbúning sem hefur um margt verið öðruvísi en reiknað var með þegar Dagur tók við starfinu. Dagur hefur til að mynda verið fjarri fjölskyldu sinni frá því mars og í raun að stórum hluta síðan löngu fyrir áramótin síðustu því undirbúningur fyrir þátttöku japanska landsliðsins stóð yfir í haust og í vetur. Handbolti.is heyrði stuttlega í Degi í gær.

„Ég kom hingað til Japans í mars og hef verið síðan. Vonir stóðu til að ástandið batnaði svo ég gæti komist heim í frí. Sú hefur ekki orðið raunin og hér er ég ennþá,“ segir Dagur og bætir við. „Dvölin er löng og ég hef ekki fengið neina heimsókn heldur svo segja má að veran hér ytra sé orðinn hálfgerð langloka.“


Talsvert hefur verið fjallað um stöðu kórónuveirunnar í Japan um þessar mundir, ekki síst í höfuðborginni, Tókýó, þéttbýlustu borg heims, sem verður vettvangur leikanna. Bólusetning almennings hefur gengið hægt og á dögunum var tekin sú ákvörðun að heimila ekki áhorfendur á leikana.

Hömlur á landamærum

Áður hafði verið opnað fyrir þann möguleika að fjöldi þeirra yrði takmarkaður. Dagur segir ástandið í Japan aldrei hafa verið mjög slæmt en miklar hömlur hafi verið frá fyrsta degi við komu til landsins þótt slakað hafi verið aðeins á þeim vegna þátttakenda á Ólympíuleikunum.

„Ástandið á covid hefur aldrei verið mjög slæmt í Japan. Hinsvegar eru Japanir mjög strangir á landamærunum. Frá upphafi faraldursins hefur 14 daga sóttkví við komu til landsins verið skilyrði. Þetta hefur sett strik í reikninginn í undirbúningi okkar. Við höfum ekkert getað ferðast í leiki né fengið landslið í heimsókn til okkar. Af þeim sökum höfum við ekki leikið einn einasta leik síðan á heimsmeistaramótinu í Egyptalandi í janúar. 

Breyttar áætlanir

Áætlanir hafa þar af leiðandi breyst mikið. Sannarlega hefðum við viljað prufukeyra eitt og annað en af því verður ekki. Á móti kemur að við höfum einbeitt okkur að æfingum og lagt mikla vinna á okkur við þær sem skilar sér vonandi þegar á hólminn verður komið.


Vírusinn hefur hinsvegar sett meira strik í reikninginn hjá mörgum öðrum en hjá okkur í boltakastinu. Við höfum reynt að gera eins gott úr stöðunni og mögulegt er,“ segir Dagur af yfirvegun.

Dagur tekur nú þátt í Ólympíuleikunum í þriðja sinn og sem þátttakandi þriðju þjóðarinnar. Hann var leikmaður og fyrirliði íslenska landsliðsins á leikunum í Aþenu 2004. Undir stjórn Dags hafnaði þýska landsliðið í þriðja sæti á Ólympíuleikunum í Ríó 2016.

Byrja gegn heimsmeisturunum

Dagur segir undirbúning hafa gengið vel miðað við aðstæður, alltént enn sem komið er en enn er vika þar til flautað verður til fyrsta leiks. Japanska landsliðið ræðst ekki á garðinn þar sem hann er lægstur en heimsmeistarar Dana verða fyrsti andstæðingur. Hann segir segir stöðuna á hópnum vera góða um þessar mundir.

Mynd/EPA


„Best er að segja sem minnst því við misstum sterkan leikmann í meiðsli tveimur eða þremur dögum áður en keppni hófst á HM í janúar. Eins og ástandið er núna þá er einn leikmaður meiddur. Ég er þó ekki viss um að hann hefði hvort sem er verið í 14 manna hópnum þótt hann sé sá hæsti af þeim leikmönnum sem ég hef úr að velja, tveir metrar.

Æfingaleikur um helgina

Annars er ég með mitt sterkasta lið um þessar mundir. Við náum einum æfingaleik um helgina. Eftir það er bara málið að halda mönnum heilum þangað til flautað verður til fyrsta leiks 24. júlí,“ segir Dagur.

Japanska landsliðið náði eftirtektarverðum árangri á HM í Egyptalandi. Komst í annað sinn í sögunni í milliriðlakeppni mótsins og í fyrsta sinn tók það stig með sér inn í þá keppni. Dagur segir að bættur árangur hafi aukið á vonirnar.

Væntingar eru meiri

„Væntingar hafa orðið aðeins meiri eftir góða frammistöðu á HM þar sem við höfnuðum í nítjánda sæti. Aðeins 12 lið taka þátt í handknattleikskeppni Ólympíuleikanna. Þar af leiðandi er hætt við að mótið verði brekka fyrir okkur. Við erum meðal annars með Barein í riðli sem varð tveimur sætum fyrir neðan okkur á HM. Auk þess mætum við Egyptum og Portúgölum sem eru með sterk lið.

Tveir fyrstu leikir okkar verða gegn heimsmeisturum Dana og silfurliði HM, Svíum. Við byrjum þar af leiðandi ekki á auðveldustu leikjunum. En það getur verið gaman að vera í „underdog“-hlutverki á svona móti. Okkur langar að komast áfram og því verðum við að kroppa í einhver stig á leiðinni sem framundan er,” sagði Dagur Sigurðsson, landsliðsþjálfari Japans, við handbolta.is í gær.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -