Daninn Mathias Gidsel varð markakóngur heimsmeistaramótsins í handknattleik sem lauk í Stokkhólmi í gærkvöld. Gidsel skoraði 60 mörk í níu leikjum danska landsliðsins á mótinu, eða 6,66 mörk að jafnaði í leik.
Heimsmeistarar Dana eiga þrjá leikmenn á meðal tíu markahæstu. Danir áttu síðast markakóng á HM árið 2019 þegar Mikkel Hansen varð efstur á lista með 72 mörk.
Bjarki Már Elísson hafnaði í sjötta sæti þrátt fyrir að leika færri leiki en flestir aðrir á meðal tíu markahæstu leikmanna mótsins. Bjarki Már skoraði 45 mörk í sex leikjum, var 15 mörkum á eftir Gidsel sem lék þremur leikjum fleiri en Bjarki Már. Að jafnaði skoraði Bjarki Már 7,5 mörk í leik á mótinu.
Gidsel verður 24 ára gamall 8. febrúar. Honum skaut upp á stjörnuhimininn á HM 2021 í Egyptalandi eftir að hafa leikið sína fyrstu landsleiki haustið 2020. Gidsel er fæddur í Skjern á norðurhluta Jótlands og lék og æfði með liði félagsins fram til 15 ára aldur. Sumarið 2014 gekk Gidsel til liðs við akademíu GOG á Fjóni og lék sinn fyrsta leik með liði félagsins í dönsku úrvalsdeildinni þremur árum. Með GOG lék Gidsel fram á síðasta sumar þegar samningur hans við Füchse Berlin í Þýskalandi gekk í gildi.
Hér fyrir neðan er að finna skrá yfir tíu markahæstu leikmenn HM 2023.
Nafn | Lið | Mörk | leikir | meðalt. |
Mathias Gidsel | Danmörku | 60 | 9 | 6,66 |
Erwin Feuchtmann | Chile | 54 | 7 | 7,71 |
Juri Knorr | Þýskalandi | 53 | 9 | 5,88 |
Simon Pytlick | Danmörku | 51 | 9 | 5,66 |
Bjarki Már Elísson | Íslandi | 45 | 6 | 7,50 |
Richard Bodo | Ungv.landi | 44 | 9 | 4,88 |
Alex Dujshebaev | Spáni | 44 | 9 | 4,88 |
Kay Smits | Hollandi | 44 | 6 | 7,33 |
Mikkel Hansen | Danmörku | 41 | 9 | 4,55 |
Ali Zein | Egyptalandi | 41 | 9 | 4,55 |