Guillaume Gille, landsliðsþjálfari Frakka, hefur kallað saman æfingahóp fyrir HM í Egyptalandi og til tveggja leikja í undankeppni EM 2022. Frakkar mæta Serbum í tvígang í undankeppninni, 5. og 9. janúar. Alls eru 20 leikmenn í hópnum hjá Gille en hann tók við franska landsliðinu í vor eftir að Didier Dinart var látinn taka pokann sinn að loknu EM í janúar.
Frakkar geta orðið andstæðingar íslenska landsliðsins í milliriðlakeppni HM í handknattleik ef liðin komast upp úr riðlum sínum á fyrsta stigi keppninnar. Riðill sá sem íslenska landsliðið verður í ásamt landsliðum Portúgal, Alsír og Marokkó mætir liðunum úr E-riðli en þar eiga Frakkar sæti ásamt Austurríkismönnum, Bandaríkjamönnum og Norðmönnum í millriðlakeppninni.
Tólf af 20 leikmönnum leika með frönskum liðum. Þar af eru tveir samherjar Kristjáns Arnar Kristjánssonar hjá PAUC – Aix, markvörðurinn Wesley Pardin og miðjumaðurinn Nicolas Claire.
Aðeins einn leikmaður eru samningsbundinn þýsku liði, vinstri skyttan Romain Lagarde sem leikur með Rhein-Neckar Löwen og er því samherji Alexanders Peterssonar og Ýmis Arnar Gíslasonar.
Þrír samherjar Arons Pálmarssonar hjá Barcelona eru í franska liðinu, Timothey N”Guessan, Dika Mem og Ludovic Fabregas.
Sérstaka athygli vekur að örvhenti hornamaðurinn Luc Abolu, sem nú leikur með Elverum, er í landsliðshópnum. Abolu fékk ekki nýjan samning hjá stórliði PSG á síðasta ári. Í stað þess að láta hug falla þá flutti hann sig til norsku meistaranna hvar hann hefur blómstrað á leiktíðinni.
Gamla brýnið Michael Guigou er í hópnum. Guigou hefur skoraði 970 mörk fyrir franska landsliðið og gæti á HM orðið þriðji franski handknattleiksmaðurinn í sögunni til að rjúfa 1.000 marka múrinn í búningi franska landsliðsins. Þeir einu sem hafa náð þeim áfanga til þessa eru Nikola Karabatic og Jerome Fernandez.
Markverðir:
Yann Genty, Paris Saint-Germain, 6 A-Nationalspiele/ 0 Tore
Vincent Gérard, Paris Saint-Germain, 97/14
Wesley Pardin, Pays d”Aix Université Club, 17/0
Vinstra horn:
Hugo Descat, Montpellier Handball, 2/0
Michael Guigou, USAM Nimes Gard, 283/970
Vinstri skyttur:
Romain Lagarde, Rhein-Neckar Löwen, 39/52
Timothey N”Guessan, FC Barcelona, 78/145
Èlohim Prandi, Paris Saint-Germain, 7/17
Miðjumenn:
Nicolas Claire, Pays d”Aix Université Club, 45/45
Kentin Mahé, Telekom Veszprem, 109/354
Melvyn Richardson, Montpellier Handball, 22/60
Línumenn:
Ludovic Fabregas, FC Barcelona, 72/131
Luka Karabatic, Paris Saint-Germain, 103/120
Nicolas Tournat, PGE Vive Kielce, 31/29
Hægri skyttur:
Adrien Dipanda, St. Raphael Var Handball, 77/91
Dika Mem, FC Barcelona, 52/133
Nedim Remili, Paris Saint-Germain, 69/216
Valentin Porte, Montepellier Handball, 124/313
Hægra horn:
Luc Abalo, Elverum Handball, 262/805
Yanis Lenne, Montepellier Handball, 16/17