Tveir handknattleiksmenn, Gísli Þorgeir Kristjánsson og Ómar Ingi Magnússon, eru á meðal tíu efstu í kjöri Íþróttamanns ársins 2025 hjá Samtökum íþróttafréttamanna. Í morgun var upplýst hvaða íþróttamenn eru í tíu efstu sætum kjörsins sem verður lýst í 70. sinn í hófi í Silfurbergi í Hörpu, laugardaginn 3. janúar 2026.
Gísli Þorgeir og Ómar Ingi eru landsliðsmenn og leika enn fremur með þýska liðinu SC Magdeburg sem varð Evrópumeistari í júní sl. Gísli Þorgeir var valinn leikmaður úrslitahelgar Meistaradeildar Evrópu þegar Magdeburg varð Evrópumeistari. Báðir eru í stórum hlutverkum hjá Magdeburg sem er taplaust í 30 leikjum í öllum mótum á yfirstandandi leiktíð.
Tveir þjálfarar
Tveir handknattleiksþjálfarar, Ágúst Þór Jóhannsson sem var þjálfari Evrópubikarmeistara Vals, og Dagur Sigurðsson landsliðsþjálfari Króatíu, eru á meðal þriggja efstu í kjöri á þjálfara ársins.
Tvö handboltalið
Tvö handboltalið, Íslandsmeistarar Fram í handknattleik karla, og Íslands- og Evrópubikarmeistarar Vals í handknattleik kvenna eru tvö af þremur liðum sem eru efst í kjöri á liði ársins 2025.
Kjöri Íþróttamanns ársins verður lýst í hófi í Silfurbergi í Hörpu, laugardaginn 3. janúar 2025. Um leið verður svipt hulunni af því hver er þjálfari ársins og hvert er lið ársins.


Gísli Þorgeir Kristjánsson og Ómar Ingi Magnússon landsliðsmenn og leikmenn SC Magdeburg. Ljósmyndir/Hafliði Breiðfjörð
Tíu efstu í kjöri íþróttamanns ársins 2025, í stafrófsröð:
Dagur Kári Ólafsson, fimleikar.
Eygló Fanndal Sturludóttir, ólympískar lyftingar.
Gísli Þorgeir Kristjánsson, handbolti.
Glódís Perla Viggósdóttir, fótbolti.
Hákon Arnar Haraldsson, fótbolti.
Hildur Maja Guðmundsdóttir, fimleikar.
Jón Þór Sigurðsson, skotfimi.
Ómar Ingi Magnússon, handbolti.
Snæfríður Sól Jórunnardóttir, sund.
Tryggvi Snær Hlinason, körfubolti.


Ágúst Þór Jóhannsson þjálfari Evrópubikarmeistara Vals og Dagur Sigurðsson landsliðsþjálfari Króatíu. Ljósmyndir/Hafliði Breiðfjörð
Þrír efstu í kjörinu um þjálfara ársins 2025 í stafrófsröð:
Ágúst Þór Jóhannsson, handbolti.
Dagur Sigurðsson, handbolti.
Heimir Hallgrímsson, fótbolti.


Íslands- og bikarmeistarar Fram í handknattleik karla 2025. Ljósmynd/HSÍ og Evrópubikarmeistarar Vals. Ljósmynd/Hafliði Breiðfjörð
Þrjú efstu í kjörinu um lið ársins 2025 í stafrófsröð:
Breiðablik kvenna, fótbolti.
Fram karla, handbolti.
Valur kvenna, handbolti.



