- Auglýsing -
- Auglýsing -

Gísli Þorgeir er leikmaður tímabilsins í Magdeburg

Gísli Þorgeir Kristjánsson var leikmaður ársins hjá SC Magdeburg. Mynd/SC Magdeburg/Franzi Gora
- Auglýsing -

Gísli Þorgeir Kristjánsson var í dag útnefndur leikmaður tímabilsins hjá þýska meistaraliðinu SC Magdeburg. Útnefningin kórónar frábært keppnistímabil hjá Gísla Þorgeiri sem hefur valdið usla í vörnum andstæðinganna, ekki aðeins í Þýskalandi, heldur einnig í leikjum Meistaradeildar Evrópu þar sem andstæðingarnir hafa verið ráðþrota í hverjum leiknum á fætur öðrum.

Gísli Þorgeir hefur skoraði 150 mörk í 30 leikjum með SC Magdeburg í þýsku 1. deildinni og auk þess gefið 100 stoðsendingar. Í 15 leikjum í Meistaradeildinni hefur Hafnfirðingurinn skorað 76 mörk og gefið 41 stoðsendingu.

„Tímabilið er búið að vera frábært. Að sama skapi hefur lítið vantað upp á til að þetta væri gjörsamlega sturlað tímabil,” sagði Gísli Þorgeir m.a. í viðtali við Vísir í kvöld.

Gísli Þorgeir meiddist fyrir mánuði í kappleik og var talið að hann tæki ekki þátt í fleiri leikjum á keppnistímabilinu. Með þrotlausri vinnu og aðstoð fagfólks hjá félaginu mætti Gísli Þorgeir galvaskur til leiks með SC Magdeburg í gærkvöld.

Stefnir allt í að hann verði í eldlínunni með Magdeburg í úrslitahelgi Meistaradeildarinnar eftir rúma viku.
SC Magdeburg er í öðru sæti þýsku 1. deildarinnar fyrir lokaumferðina á sunnudaginn og á veika von um verða meistari annað árið í röð.

Hollendingurinn Kay Smits varð annar í valinu hjá SC Magdeburg og Norðmaðurinn Christian O’Sullivan þriðji. Smits tók við keflinu af Ómari Inga Magnússyni þegar hann meiddist snemma árs. Smits gengur til liðs við Flensburg í sumar.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -