- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -

Gjaldþrot blasir við einu þekktasta félagsliði Evrópu

Leikmenn ŽRK Budućnost BEMAX fagna sigri á ungverska liðinu FTC eftir leik í Meistaradeild Evrópu í mars. Ljósmynd/EPA
- Auglýsing -

Eitt þekktasta handknattleikslið í Evrópu í kvennaflokki, ŽRK Budućnost í Svartfjallalandi, stendur á brauðfótum eftir að lang stærsti fjárhagslegi bakhjarlinn, Bemax, sagði skilið við félagið. Líklegra en ekki er að ŽRK Budućnost verði gjaldþrota eða a.m.k. verði ekki áfram í þeirri mynd sem það hefur verið og taki til að mynda ekki þátt í Meistaradeild Evrópu eins og til stendur.

Samningum sagt upp

„Vandinn er grafalvarlegur. Síðustu daga höfum við sagt upp samningum við leikmenn og starfsfólk og reynt eftir mætti að draga úr öllum útgjöldum,“ segir Maja Bulatović framkvæmdastjóri félagsins í samtali við fréttmiðilinn Dan í Svartfjallalandi. Eins og kom m.a. fram á handbolti.is í morgun þá er þjálfarinn Bojana Popovic ein þeirra sem er hætt hjá félaginu.

ŽRK Budućnost vann Meistaradeild Evrópu 2012 og 2015 og skartaði árum saman mörgum fremstu og best launuðu handknattleikskonum Evrópu. Auk þess hefur lið félagsins borið höfuð og herðar yfir önnur kvennalið landsins og orðið meistari nær sleitulaus á annan áratug. Auk þess hafa leikmenn liðsins verið burðarásar í landsliði Svartfjallalands.

Rær lífróður

Bulatović framkvæmdastjóri segir ljóst að vart verði af þátttöku ŽRK Budućnost í Meistaradeild Evrópu ef ekki rofar skyndilega til. Félagið verður hreinlega lagt niður ef ekki hleypur eitthvað stórkostlegt á snærið hjá forsvarsmönnum þess á allra næstu dögum.

„Hvort eitthvað lið keppir undir merkjum félagsins í deildinni í Svartfjallalandi og hver muni þá þjálfa það lið hef ég ekki hugmynd um,“ segir Bulatović framkvæmdastjóri sem rær lífróður fyrir framtíð ŽRK Budućnost enda er staða félagsins grafalvarleg.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -