„Serbar leika öðruvísi handbolta en Svíar en er kannski nær því sem við erum vanar. Serbar leika mjög fasta vörn, en fara ekki eins framarlega og Svíarnir,“ sagði Hildigunnur Einarsdóttir, hin reynslumikla landsliðskona í handknattleik, við handbolta.is í gær um síðari viðureignina í tvíhöfða landsliðsins í undankeppni EM í handknattleik gegn Serbum í dag kl. 16.
„Mér líst mjög vel á viðureignina við Serba. Við höfum gert upp Svíaleikinn á fimmtudagskvöldið og tekið úr honum mörg góð atriði sem við ætlum okkur að nýta í leiknum við Serba,“ sagði Hildigunnur ennfremur en leikur Íslands og Serbíu hefst klukkan 16 í Schenkerhöllinni á Ásvöllum og verður aðgangur ókeypis.
Hildigunnur segir íslenska liðið eigi meiri möguleika gegn Serbum en á móti Svíum. „Auk þess er það mjög góð tilfinning að spila á heimavelli, fá fullt af fólki á leikinn sem myndar góða stemningu. Það er fullur séns á góðum úrslitum gegn Serbum. Ég hef trú á því.
Verkefni okkar er óbreytt. Við þurfum að horfa fram á veginn, stytta slæmu kaflana í leik okkar og mæta í mjög erfiðan leik af fullum krafti og einbeitingu,“ sagði Hildigunnur Einarsdóttir landsliðskona í handknattleik.
Viðureign Íslands og Serbíu í 6. riðli undankeppni EM hefst klukkan 16 í Schenkerhöllinni á Ásvöllum. Aðgangur að leiknum er ókeypis þar sem Arionbanki býður landsmönnum á leikinn.